Fara beint í efnið

12. mars 2019

Ekki fleiri staðfest mislingatilfelli – meira bóluefni væntanlegt

Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun, þriðjudaginn 12.mars, kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Farið var yfir stöðu mála og drög að bólusetningaráætlun fyrir allt landið lögð fram.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun, þriðjudaginn 12.mars, kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Farið var yfir stöðu mála og drög að bólusetningaráætlun fyrir allt landið lögð fram. Von er á meira bóluefni til landsins um miðja þessa viku og verða leiðbeiningar gefnar út í framhaldinu um fyrirkomulag bólusetningar.

Heimasóttkví vegna mislinga

Töluverður fjöldi einstaklinga eru í heimasóttkví undir eftirliti heilsugæslunnar. Í heimasóttkví felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að 21 degi. Viðkomandi má alls ekki umgangast þá sem ekki hafa verið bólusettir fyrir mislingum eða fengið mislinga. Ekki skal fara á mannamót, í verslanir, á heilsuræktarstöðvar, á aðra fjölmenna staði eða nota almenningssamgöngur. Það er í lagi að fara í bílferð á eigin bifreið og til greina kemur að fara inn á önnur heimili ef staðfest er, að allir þar eru ónæmir fyrir mislingum, þ.e. bólusettir eða með fyrri sögu um mislinga.

Sóttvarnalæknir vill ítreka að mislingar eru bráðsmitandi, smitið er bæði loftborið og berst einnig með snertingu.

Áfram verður fylgst með stöðu mála.

Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli heilsugæslunnar, www.heilsuvera.is og í síma 1700.

Sóttvarnalæknir