Fara beint í efnið

18. júlí 2019

Ebóla í Austur-Kongó

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur lýst ebólufaraldurinn sem geisað hefur í Norður-Kivu í Austur-Kongó undanfarið ár bráða ógn við lýðheilsuna sem varðar þjóðir heims skv. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni frá 2005 (e. public health emergency of international concern).

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur lýst ebólufaraldurinn sem geisað hefur í Norður-Kivu í Austur-Kongó undanfarið ár bráða ógn við lýðheilsuna sem varðar þjóðir heims skv. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni frá 2005 (e. public health emergency of international concern).

Þessi yfirlýsing kemur í kjölfar þess að tilfelli hafa borist til milljónaborgarinnar Goma á landamærum Austur-Kongó við Rúanda sem er talið auka mjög hættu á að sjúkdómurinn breiðist út bæði innan Austur-Kongó en einnig milli landa. Alþjóðaflugvöllur er í Goma. Þrátt fyrir sóttkví er vitað um eitt tilfelli tengt þessum faraldri sem ferðaðist frá Norður-Kivu til Úganda í júní sl. og ekki er hægt að útiloka að slíkir atburðir geti átt sér stað út frá Goma, en landamærin við Rúanda eru að hluta til á stöðuvatni sem mögulega torveldar eftirlit með mannaferðum um landamærin.

Með yfirlýsingunni vill Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetja til enn öflugri viðbragða yfirvalda á svæðinu bæði í Austur-Kongó og í nágrannaríkjum, sem og meðal alþjóðasamfélagsins gegn faraldrinum í Austur-Kongó. Tekið er fram í yfirlýsingunni að ekki er mælt með skimunum á flugvöllum, ferðabanni eða vöruflutningabanni.

Hugsanlegt er að íslenskir aðilar sem sinna neyðaraðstoð á heimsvísu muni taka þátt í aðgerðum í framhaldi af yfirlýsingunni. Með það í huga mun sóttvarnalæknir á næstu vikum ljúka við hafið starf við að endurskoða og uppfæra viðbragðsáætlanir og leiðbeiningar frá 2015 til viðbragðsaðila og almennings vegna ebólusjúkdóms. Viðbragðsaðilar hérlendis eru hvattir til að gera slíkt hið sama.

Nánari upplýsingar um ebólusjúkdóm á íslensku má finna á vef embættis landlæknis.

Leiðbeiningar vegna ferða á svæði þar sem ebóla er útbreidd má finna hér.

Sóttvarnalæknir