1. apríl 2020
1. apríl 2020
COVID-19: Smitrakning með aðstoð apps
Nú er lokið gerð s.k. smitrakningar-apps sem er nýjung og liður í viðamiklum aðgerðum til að hægja á og vonandi minnka útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19. Appið er aðgengilegt í App Store og Google Play.
COVID-19: Smitrakning með aðstoð apps
Nú er lokið gerð s.k. smitrakningar-apps sem er nýjung og liður í viðamiklum aðgerðum til að hægja á og vonandi minnka útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19.
Appið er aðgengilegt í App Store og Google Play. Sjá upplýsingar á covid.is
„Fletjum kúrfuna“
Mikilvægt er að forða því að margir veikist á stuttum tíma sem án efa myndi valda álagi á heilbrigðiskerfið sem það réði ekki við eins og dæmi erlendis frá sýna. Þess í stað er með aðgerðum reynt að tefja útbreiðslu þannig að veikindin verði yfir lengri tíma, þetta hefur verið kallað „að fletja kúrfuna“ (sjá mynd). Þá má vona að tíminn vinni með okkur í því að hægt verði að þróa meðferð við COVID-19.
Því hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að hefta útbreiðslu faraldursins. Snemma var ráðist í að fræða almenning um smitvarnir og mikil áhersla lögð á að vernda aldraða og fólk í áhættuhópum. Grundvallaratriði er að greina smit snemma og einangra hinn sýkta til að forða því hann smiti aðra. Þá hafa verið í gangi umfangsmiklar aðgerðir til að rekja smit, það er að rannsaka hverjir hafa hugsanlega verið útsettir fyrir smiti frá hinum sýkta og setja þá í sóttkví. Tölulegar upplýsingar styðja mikilvægi þessa en um helmingur þekktra smita hefur greinst hjá fólki sem þegar er í sóttkví. Á síðari stigum hefur svo komið til samkomubann til að minnka hættu á útbreiðslu enn frekar.
Smitrakning
Smitrakning hefur verið flókin og mannaflafrek auk þess sem erfitt getur verið fyrir hinn sýkta að muna nákvæmlega hvar hann hefur verið. Því var ákveðið að hanna forrit, s.k. app, sem ætlað er að auðvelda smitrakningu ef á þarf að halda en slíkt smitrakningaforrit hafa gefið góða raun í Suður Kóreu og Singapúr. Það er hugsað til notkunar í núverandi faraldri en einnig til að þróa tæknina til framtíðar.
Notkun appsins byggir á samþykki notenda, bæði til að taka appið í notkun og til miðlunar upplýsinga síðar meir ef þess gerist þörf, en þetta er kallað tvöfalt samþykki. Appið notar GPS staðsetningargögn og eru upplýsingar um ferðir viðkomandi eingöngu vistaðar á síma notanda. Ef notandi greinist með smit og rakningateymið þarf að rekja ferðir þá fær notandi beiðni um að miðla þeim upplýsingum til rakningateymisins. Um leið og smitrakningateymið biður um aðgang að gögnunum mun það einnig óska eftir kennitölu viðkomandi svo ekki fari á milli mála hver er á bakvið gögnin. Þannig er tryggt að enginn hefur aðgang að þessum upplýsingum nema að notandinn vilji það. Staðsetningargögnunum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda.
Rúm vika er síðan hönnun á smitrakningaforritinu hófst. Embætti landlæknis ber ábyrgð á því en íslensku fyrirtækin Aranja, Kolibri, Stokkur, Sensa, Samsýn, forritarar frá Íslenskri erfðagreiningu og Syndis buðu fram aðstoð sína án endurgjalds. Þá var í teyminu reynt fólk sem hefur starfað í tugi ára við upplýsingaöryggi og persónuvernd. Hönnunarteymið var í reglulegu sambandi við Persónuvernd til að upplýsa um verkefnið og eru öllum þessum aðilum færðar miklar þakkir. Öryggi kerfisins hefur nú staðist úttekt óháðs aðila.
Við erum öll almannavarnir
Íslendingar munu geta sótt appið, Rakning C-19, endurgjaldslaust í App eða Play Store. Því fleiri sem sækja appið, þeim mun betur mun það gagnast smitrakningateyminu. Appið mun þó engu að síður gagnast við að aðstoða alla, sem velja að taka þátt, við að rifja upp ferðir sínar. Við biðlum nú til almennings að nálgast appið og vista á símtækjum sínum í þeirri viðleitni að halda áfram í því verkefni að lágmarka skaðann af COVID-19. Við erum öll almannavarnir!
landlæknir