Fara beint í efnið

13. mars 2020

COVID-19 og andleg heilsa

Nú þegar mikið er rætt um sjúkdóminn sem veldur COVID-19 í samfélaginu er eðlilegt að margir finni fyrir áhyggjum og jafnvel kvíða yfir heilsu sinni og annarra.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Nú þegar mikið er rætt um COVID-19 faraldurinn í samfélaginu er eðlilegt að margir finni fyrir áhyggjum og jafnvel kvíða yfir heilsu sinni og annarra. Það er vissulega mikilvægt að fræðast um veiruna og hvernig hægt er að verja sig og sína en það er ekki síður mikilvægt að huga að geðheilsunni og gæta þess að áhyggjur bitni ekki á andlegri heilsu.

Það fyrsta sem er gott að hafa í huga er að áhyggjur og kvíði eru eðlileg viðbrögð í ákveðnum aðstæðum, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir óþekktri ógn. Í gegnum tíðina hefur heilbrigður ótti og kvíði kennt okkur að forðast hættur og þannig bjargað lífi okkar. Það er því fullkomlega eðlilegt að finna fyrir þessum tilfinningum núna en jafnframt mikilvægt að láta þær ekki taka yfir. Við þurfum að vinna á uppbyggilegan hátt úr þessum áhyggjum, hlusta vel á fyrirmæli frá stjórnvöldum og huga að þeim þáttum sem við höfum stjórn á einbeita okkur að þeim.

Fylgjum forvarnaraðgerðum

Það getur einnig verið gott að rifja það upp að margvíslegar aðrar hættur finnast í samfélaginu sem við höfum lært að umgangast í daglegu lífi. Nærtækt dæmi er umferðin. Við vitum öll af þeim hættum sem leynast í umferðinni og höfum vanist því að bregðast við þeim, t.d. með því að líta til beggja hliða áður en við förum yfir götu, setja á okkur bílbelti við akstur og tala ekki í símann á meðan við erum að keyra. Þetta finnst okkur flestum sjálfsagt mál og lítum ekki á það sem neina histeríu að nota öryggisbelti og erum laus við áhyggjur í þessum aðstæðum. Enda er engin ástæða til þess svo lengi sem við fylgjum þessum forvarnaraðgerðum. Án þeirra væri aftur á móti rík ástæða til þess að hafa áhyggjur.

Líta má á þær forvarnaraðgerðir sem við þurfum nú að venja okkur á vegna COVID-19 með sambærilegum hætti. Það er mikilvægt að sinna þeim aðgerðum, s.s. þvo hendur reglulega, lágmarka snertingu við andlit, nota handspritt, hósta og hnerra í olnboga eða einnota klút o.s.frv. Það er mikilvægt að allir geri þetta, svo við hægjum á smitinu og verndum þá sem eru veikir fyrir. Þegar við förum eftir þessum fyrirmælum gerum við það sem við höfum stjórn á til að lágmarka áhættu og þurfum ekki að hafa áhyggjur að auki.

Hugsum um það sem við erum þakklát fyrir og gefur lífinu gildi

Ótti og áhyggjur - umfram eðlilegar forvarnaraðgerðir - bæta ekki öryggi okkar og þær efla ekki heldur ónæmiskerfið okkar. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að jákvæðar tilfinningar geta eflt ónæmiskerfið og því er rík ástæða til að týna ekki gleðinni á þessum tímum heldur finna leiðir til að hugsa um það sem við erum þakklát fyrir og gefur lífinu gildi. Eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir andlega heilsu eru félagsleg samskipti og því er sérstaklega mikilvægt að huga að því hvernig við getum ræktað samband við fjölskyldu og vini án þess að snertast og jafnvel hittast. Nú reynir á hugmyndaflugið og tæknina. Sem betur fer getum við heyrt í fólki og séð það í gegnum alls konar samskiptaforrit í tölvu eða síma og við ættum ekki að hika við að nota okkur tæknina þar.

Til að viðhalda góðri geðheilsu er mikilvægt að borða hollan mat, hafa reglu á máltíðum, svefni og hreyfingu, stunda útiveru og vera í nærandi samskiptum við aðra og nota netið ef með þarf. Gagnleg verk, eins og að sinna húsverkum og viðhaldi, eitthvað sem skilur eftir sig sýnilegan árangur, hafa líka jákvæð áhrif á líðan. Þessi atriði eru mikilvæg alla daga en alveg sérstaklega á tímum sem þessum.

Fjölbreytni í lífinu og lifandi samskipti mikilvæg

Þrátt fyrir að mælst sé til þess að fólk sé ekki mikið í beinni líkamlegri snertingu við aðra utan heimilis er ekki þar með sagt að fólk eigi að hætta samskiptum. Þeir sem ekki eru með áhættuþætti fyrir alvarlega sýkingu ættu að lifa sem eðlilegustu lífi en ef þeir veikjast er rétt að halda sig heima meðan veikindi ganga yfir. Mikilvægt er að gæta varkárni í samskiptum við aldraða einstaklinga og aðra þá sem eru veikir fyrir og virða þær takmarkanir á umgengni sem aðrir setja sér og sínum. Ef heimsóknir til aldraðra eða viðkvæmra ástvina eru ekki mögulegar er mikilvægt að nota þær samskiptaleiðir sem enn eru tiltækar, s.s. síma, tölvusamskipti eða jafnvel útvarpskveðjur, skeyti og sendibréf. Þeir sem eru í sóttkví ættu eftir sem áður að gæta að fjölbreytni í deginum, hreyfa sig innandyra eða úti í hæfilegri fjarlægð frá öðrum og halda reglulegu sambandi við vini og fjölskyldu t.d. í gegnum síma og samskiptaforrit. Í dag er hægt að vera í lifandi samskiptum þrátt fyrir líkamlega fjarlægð.

Að lokum er mikilvægt að muna að öll él birtir upp um síðir - nú sem áður.