Fara beint í efnið

27. júlí 2021

Breytingar á tilmælum vegna COVID-19 varðandi ferðalög erlendis

Í ljósi aukinna smita í mörgum löndum heims er nú öllum íbúum Íslands ráðlagt að ferðast ekki að nauðsynjalausu til skilgreindra áhættusvæða

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í ljósi aukinna smita í mörgum löndum heims er nú öllum íbúum Íslands ráðlagt að ferðast ekki að nauðsynjalausu til skilgreindra áhættusvæða, sem í dag eru öll lönd og svæði heims nema Grænland. Reglulega er endurmetið hvort lönd falli undir áhættusvæði en sóttvarnalæknir telur ekki tímabært að breyta áhættusvæðum eins og er. Stór hluti annarra þjóða er enn óbólusettur og mikið um smit meðal óbólusettra en bólusettir einstaklingar smitast líka og geta smitað aðra, þótt bólusetning verji einstaklinginn gegn alvarlegum sjúkdómi.

Þeir sem þurfa að ferðast erlendis eru beðnir að sýna varúð og sinna persónulegum sóttvörnum á ferðalaginu og erlendis, þ.m.t. tíðum handþvotti, forðast mannþröng og nánd við ótengda aðila og nota andlitsgrímur. Allir eru hvattir til að fara í sýnatöku sem fyrst ef einkenna verður vart. Einkennalausir ferðamenn eru einnig hvattir til að fara í sýnatöku við heimkomu til Íslands, þó þeir séu bólusettir, sem hægt er að panta á heilsuvera.is (undir COVID-19, bóka einkennasýnatöku: Velja Keflavík-airport sem staðsetningu og tilefni skv. tilmælum sóttvarnalæknis. Einnig hægt að velja staðsetningu á Suðurlandsbraut eða utan höfuðborgarsvæðis og gera sem fyrst eftir komuna).

Ferðamenn þurfa að huga að því að raskanir geti orðið á flugi og breytingar á reglum í öðrum löndum með litlum fyrirvara sem geta valdið erfiðleikum á að komast heim. Þá liggur skýrt fyrir að þeir sem eru jákvæðir á COVID-19 prófi eiga ekki að ferðast með smitandi sjúkdóm og þeir geta því ekki farið í áætlunarflug eða skip. Þessir einstaklingar verða einnig að fylgja fyrirmælum í viðkomandi landi.

Sjá nánar um skilgreind svæði með smitáhættu og reglur um för yfir landamæri.

Sóttvarnalæknir