Fara beint í efnið

10. júní 2020

Breyting á verklagi embættis landlæknis vegna veitingar tímabundinna starfsleyfa til læknakandídata.

Embætti landlæknis tilkynnir hér með breytt verklag er lýtur að útgáfu tímabundinna starfsleyfa til kandídata. Samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 er landlækni heimilt, ef nauðsyn krefur, að veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis tímabundið starfsleyfi

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis tilkynnir hér með breytt verklag er lýtur að útgáfu tímabundinna starfsleyfa til kandídata.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 er landlækni heimilt, ef nauðsyn krefur, að veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis tímabundið starfsleyfi til að sinna tilgreindum læknisstörfum, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 11. gr.

Landlæknir veitir læknakandídötum tímabundið starfsleyfi á meðan starfsnám þeirra stendur yfir. Það leyfi nær til námsblokkar kandídata sbr. marklýsingu fyrir starfsnám lækna (síðast uppfærð í júní 2019) sem sett er með stoð í 4. gr. reglugerðar nr. 467/2015, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til þess að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Í tilgreindu ákvæði er fjallað um starfsnám til almenns lækningaleyfis og að kandídatsárið sé 12 mánaða klínískt nám í fullu starfi.

Á grundvelli fyrrgreinds 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 34/2012 hafa læknakandídötum einnig verið veitt tímabundin starfsleyfi utan námsblokkar. Þetta fyrirkomulag hefur nú verið endurmetið í ljósi þess að ofangreint ákvæði fjallar um læknanema en ekki læknakandídata í starfi.

Landlæknir hefur ákveðið að frá og með deginum í dag verði tímabundin starfsleyfi ekki veitt læknakandídötum utan fyrrgreindrar námsblokkar.

Framangreint gildir einnig um tímabilið frá lokum starfsnáms læknakandídats þar til honum hefur verið veitt almennt lækningaleyfi.

Útgefin tímabundin leyfi halda gildi sínu.