30. maí 2018
30. maí 2018
Brautryðjandi í iðkun núvitundar kemur til landsins í dag
Jon Kabat-Zinn, sem lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði í vestrænum heimi verður með þrjá viðburði í Hörpu dagana 30. maí, 1.-2. júní.
Jon Kabat-Zinn, prófessor emeritus í læknisfræði við University of Massachusetts, sem lagði fyrstur manna grunn að iðkun núvitundar í læknisfræði og sálfræði í vestrænum heimi, er væntanlegur til Íslands í dag á vegum Embættis landlæknis og Núvitundarsetursins.
Koma hans er liður í samfélagslega verkefninu, Lýðheilsustefnu Íslendinga, sem m.a. felst í að innleiða núvitund og stuðla að vitundarvakningu fyrir bættu geðheilbrigði og vellíðan um allt samfélagið.
Kabat-Zinn þróaði árið 1979 fyrsta núvitundarnámskeið sögunnar, Núvitund gegn streitu (Mindfulness-Based Stress Reduction), sem hefur verið ítarlega rannsakað og reynst árangursríkt fyrir breiðan hóp af fólki. Þekking hans á erindi til allra sem leitast við að gera sitt besta til að takast á við áskoranir daglegs lífs, auka vellíðan og lífsgæði og stuðla að betra samfélagi.
Jon Kabat-Zinn verður með þrjá viðburði í Hörpu dagana 30. maí, 1.-2. júní sem eru ætlaðir öllum sem hafa áhuga á núvitund eða langar einfaldlega til að nýta einstakt tækifæri og kynnast þessum merka frumkvöðli.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis
Netfang: dora@landlaeknir.is