17. ágúst 2020
17. ágúst 2020
Berum virðingu hvert fyrir öðru
Að gefnu tilefni. Á undanförnum árum hafa meiriháttar framfarir átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks, þar á meðal með tilliti til aðgengis að heilbrigðisþjónustu.
Að gefnu tilefni.
Á undanförnum árum hafa meiriháttar framfarir átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin og kynsegin fólks, þar á meðal með tilliti til aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Hinsegin fólk, líkt og allir aðrir, á rétt á heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hálfu einstaklings sem sýnir virðingu, sinnir störfum sínum af árvekni og trúmennsku, og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. Heilbrigðisstarfsmanni ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur og tileinka sér nýjungar er varða starfið.
Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsmenn komi fram af fagmennsku, virðingu og á grundvelli bestu þekkingar hverju sinni og forðist það að valda eða gera lítið úr angist, þjáningu og stöðu þeirra sem sárlega þurfa viðurkenningu og stuðningi að halda. Krafa hinsegin fólks um að standa jafnfætis öðrum er og verður réttmæt. Heilbrigðisstarfsfólki er bent á að það getur fengið hinsegin fræðslu hjá Samtökunum 78.
Þó svo að vafalaust megi enn gera betur í heilbrigðisþjónustu fyrir hinsegin og kynsegin fólk þá ber að fagna þeim miklu framförum sem orðið hafa í aðgengi þessa hóps að slíkri þjónustu.
Landlæknir fagnar fjölbreytileikanum og sendir kveðju sína til hinsegin fólks.