4. janúar 2019
4. janúar 2019
Ávísanir tauga- og geðlyfja árið 2018
Talsverðar breytingar hafa orðið síðastliðið ár á ávísunum helstu tauga- og geðlyfja hér á landi. Notkun tauga- og geðlyfja er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi.
Talsverðar breytingar hafa orðið síðastliðið ár á ávísunum helstu tauga- og geðlyfja hér á landi. Notkun tauga- og geðlyfja er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi en Íslendingar nota afgerandi meira af örvandi lyfjum eins og metýlfenídati en einnig af þunglyndislyfjum. Verulega dró úr ávísunum á ópíóíða árið 2018 en vakning hefur verið meðal lækna að taka upp nýjar ávísanavenjur við ávísanir á ópíóíða.
Árið 2018 dró í fyrsta skipti úr ávísunum methýlfenidats en notkun þess hér á landi hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár og er langt umfram það sem er á hinum Norðurlöndunum. Árið 2018 var notkun metýlfenidats nærri þreföld miðað við árið 2008.
Ávísanir þunglyndislyfja og geðrofslyfja halda áfram að aukast sem eykur enn á sérstöðu Íslands í notkun þessara lyfja.
Fyrir mörg ávanabindandi lyf dregur úr ávísunum frá 2017 til 2018 og munar mest um einstök verkjalyf. Svefnlyf eru mun meira notuð hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og er lítil breyting í ávísunum þeirra. Á meðan dregur úr ávísun Zópíklóns aukast ávísanir Zolpídem. Þau ávanabindandi lyf sem aukast mest eru Gabapentín og Pregabalín sem bæði flokkast sem flogaveikilyf en eru einnig notuð við kvíða og verkjum. Þó að Gabapentín sé ekki talið mjög ávanabindandi þá hefur komið í ljós að það er eitt af þeim lyfjum sem einstaklingar fara á milli lækna til að fá ávísað lyfinu.
Ólafur B. Einarsson sérfræðingur
Andrés Magnússon yfirlæknir