Fara beint í efnið

10. desember 2019

Aukning á lekanda og sárasótt

Útbreiðsla lekanda og sárasóttar hefur aukist umtalsvert á Íslandi á síðastliðnum árum eins fram kemur í meðfylgjandi greinargerð.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Útbreiðsla lekanda og sárasóttar hefur aukist umtalsvert á Íslandi á síðastliðnum árum eins fram kemur í meðfylgjandi greinargerð. Samkvæmt henni virðast sam- og/eða tvíkynhneigðir íslenskir karlmenn á aldrinum 20–44 ára vera helsti áhættuhópurinn fyrir þessar sýkingar og er aukningin í samræmi við faraldsfræði þessara sýkinga í vestrænum löndum. Til að bregðast við þessu vill sóttvarnalæknir benda á nýútkomnar „Leiðbeiningar sóttvarnalæknis um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV“, sem unnar voru í samvinnu fjölda innlendra sérfræðinga. Leiðbeiningarnar eru ein af tillögum starfshóps sem fyrrverandi ráðherra skipaði til að stemma stigu við vaxandi útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi. Til að ná árangri í baráttunni gegn þessum sýkingum er áríðandi að bregðast rétt við með viðeigandi sýnatöku, réttri sýklalyfjameðferð, sem oft þarf að fylgja eftir til að tryggja árangur meðferðar. Vaxandi sýklalyfjaónæmi lekandabakteríunnar getur torveldað meðferð, en eina leiðin til að kanna sýklalyfjanæmið er með ræktun, því greining á erfðaefni gefa ekki upplýsingar um sýklalyfjanæmi. Þá þarf einnig að finna þá einstaklinga sem gætu hafa orðið fyrir smiti með góðri rakningu smitleiða.

Sambærileg aukning hefur ekki sést í tölum um klamydíu og HIV á þessu ári, nánari greining á faraldsfræði þeirra sýkinga kemur því síðar.

Lekandi
Fleiri hafa greinst með lekanda á þessu ári borið saman við síðastliðin ár, því þann 30. nóvember sl. höfðu alls 111 einstaklingar greinst með lekanda sem er töluvert fleiri en árlegur fjöldi á undanförnum árum.

Sýkingin greinist mun oftar í körlum en konum. Samkvæmt klínískum tilkynningum frá læknum á þessu ári var 41 karlanna sam- og/eða tvíkynhneigður, sex voru gagnkynhneigðir en upplýsingar um kynhneigð vantar fyrir 50 karla.

Þegar ríkisfang þeirra sem greindust með lekanda er kannað kemur í ljós að Íslendingar eru í miklum meiri hluta.

Þegar aldur þeirra sem greinast með lekanda er skoðaður, sést að sýkingin greinist oftast meðal einstaklinga á aldrinum 20–44 ára.

Lekandasýking greinist því oftast meðal íslenskra sam- og/eða tvíkynhneigðra karla á aldrinum 20–44 ára, sem samkvæmt því er helsti áhættuhópurinn.

Sárasótt
Alls hafa 36 einstaklingar greinst með sárasótt á þessu ári, þ.e. frá 1. janúar–30. nóvember. Þetta er aukning miðað við árið 2018, en nær þó ekki sama fjölda og 2017 en það ár greindust flestir með sárasótt.

Sýkingin greinist mun oftar í körlum en konum. Upplýsingar um áhættuþætti vantar fyrir marga einstaklinga, en samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja eru flestir karlmenn með sárasótt ýmist sam- og/eða tvíkynhneigðir.

Þegar ríkisfang þeirra sem greindust er kannað kemur í ljós að Íslendingar eru í miklum meiri hluta.

Þegar aldur þeirra sem greinast með sárasótt er skoðaður sést að sýkingin greinist oftast meðal einstaklinga á aldrinum 25–44 ára.

Samkvæmt þessu greinist sárasótt oftast meðal íslenskra sam- og/eða tvíkynhneigðra karlar á aldrinum 25–44 ára sem er því helsti áhættuhópurinn.

Sóttvarnalæknir