Fara beint í efnið

13. október 2021

Aukaverkanir eftir bólusetningar gegn COVID-19 og alvarlegar COVID-19 sýkingar hjá börnum

Fjöldabólusetningar 12–15 ára með seinni skammti af bóluefni Pfizer/BioNTech gegn COVID-19 fóru fram í viku 37 og eru því fjórar vikur liðnar frá þeim í þessari viku.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Aukaverkanir

Fjöldabólusetningar 12–15 ára með seinni skammti af bóluefni Pfizer/BioNTech gegn COVID-19 fóru fram í viku 37 og eru því fjórar vikur liðnar frá þeim í þessari viku.

Fram til dagsins í dag hafa fáar alvarlegar aukaverkanir verið tilkynntar eftir bólusetningarnar hjá þessum aldurshópi. Eitt tilvik hjartabólgu eftir bólusetningu 12–15 ára barns hefur verið staðfest á Barnaspítala Hringsins fram til 11. október, engar tilkynningar hafa borist um gollurshússbólgu hjá þessum aldurshópi.  

Lyfjastofnun, sóttvarnalæknir og læknar Barnaspítala fylgjast áfram grannt með mögulegum aukaverkunum í þessum aldurshópi. Yfirlit yfir tilkynntar aukaverkanir í aldurshópnum 12–17 ára er birt reglulega. Hér eftir verður uppfærsla sennilega u.þ.b. mánaðarlega þar sem meirihluti aldurshópsins er kominn yfir aðaláhættutímann eftir seinni bólusetninguna.

Alvarlegar COVID-19 sýkingar

Börn sem eru of ung til að fá bólusetningu eru nú 40% einstaklinga í einangrun en eru innan við 15% af íbúum landsins.

Í september og október hafa þrjú börn lagst inn á Barnaspítala Hringsins með alvarlega fylgikvilla COVID-19 sýkingar, eitt undir 5 ára aldri en hin 12–15 ára. Eitt barn lagðist inn á gjörgæslu með alvarlega bakteríulungnabólgu í kjölfar COVID-19 sýkingar. Tvö börn hafa lagst inn á almenna deild, annað með blóðtappa og hitt með fjölkerfabólgusjúkdóm (MIS-C). Hlutfall innlagna hjá börnum <16 ára aldri sem greinst hafa með COVID-19 í þessari delta bylgju er þá 0,4%.

Sóttvarnalæknir