Fara beint í efnið

4. mars 2019

Annar einstaklingur greinist með mislinga á Íslandi

Þann 2. mars síðastliðinn greindist tæplega 11 mánaða gamalt barn með mislinga á Íslandi. Barnið sem var óbólusett, var í sama flugi og einstaklingur með smitandi mislinga þann 15.2.2019.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Þann 2. mars síðastliðinn greindist tæplega 11 mánaða gamalt barn með mislinga á Íslandi. Barnið sem var óbólusett, var í sama flugi og einstaklingur með smitandi mislinga þann 15.2.2019, sjá frétt af vef Embættis landlæknis frá 19.02.2019.

Barnið var lagt inn á Barnaspítala Hringsins þann 1. mars sl. og heilsast vel eftir atvikum. Líkur á frekara smiti frá barninu er ólíklegt en einstaklingar í nánasta umhverfi barnsins eru bólusettir gegn mislingum.

Á þessari stundu er ekki vitað um fleiri smitaða einstaklinga en mögulega má búast við smiti fram til 7. mars en þá eru 3 vikur liðnar frá því að einstaklingurinn með mislinga í fyrrgreindri frétt var á ferðalagi bæði erlendis og hér innanlands.

Rétt er að minna á að mislingar eru með mest smitandi sjúkdómum sem þekkjast. Engin meðferð er til við sjúkdómnum og eina fyrirbyggjandi meðferðin felst í bólusetningu sem veitir meira en 95% vörn. Þetta minnir á mikilvægi þess að halda hér uppi góðri þátttöku í bólusetningum.

Bólusetning gegn mislingum er við 18 mánaða og 12 ára aldur. Hægt er að bólusetja börn frá 6 mánaða aldri en vörn bólusetningarinnar er óviss á aldrinum 6−12 mánaða. Litlar líkur eru á vernd ef bólusett er fyrir 6 mánaða aldur.

Sóttvarnalæknir