Fara beint í efnið

1. desember 2020

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember

Í skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og WHO fyrir árið 2019 kemur fram að meira en 2 milljón manns eru greindir með HIV í Evrópu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og WHO fyrir árið 2019 kemur fram að meira en 2 milljón manns eru greindir með HIV í Evrópu. Tíðni sýkinga og smitleiðir eru ólíkar í mismunandi löndum álfunnar en um 137 þúsund manns greindust með HIV árið 2019, þar af 25 þúsund á ESB/EES svæði. Nýgengi HIV smita er því um 15 á 100 þúsund íbúa í álfunni. Árið 2019 greindust um 12 þúsund með alnæmi með nýgengi um 1,7 á 100 þúsund íbúa. Töf á greiningu nýrra HIV tilfella er vandamál í álfunni og áhyggjur að COVID-19 faraldurinn gæti haft neikvæð áhrif á fjölda prófa og tafið greiningar enn frekar á þessu ári. Átak til að sporna við þessu er í gangi á vegum ECDC og WHO.

Árið 2019 greindist 31 tilfelli af HIV-sýkingu á Íslandi sem var nokkuð færri en árið 2018 þegar 38 greindust. Karlar voru 26 og konur fimm. Flestir sem greindust á árinu eða 16 talsins smituðust vegna kynmaka samkynhneigðra, sjö vegna kynmaka gagnkynhneigðra og tveir vegna neyslu fíkniefna í æð. Í einu tilfelli var um að ræða smit frá móður til barns á erlendri grund. Ekki er vitað með vissu um fimm smitleiðir en flestir sem greindust voru með erlent ríkisfang (26 af 31). Talið er að tveir einstaklingar hafi smitast á Íslandi vegna samkynhneigðra kynmaka, 25 hafi smitast erlendis en í fjórum tilvikum var óljóst hvar smit varð. Frá greiningu alnæmis á Íslandi fyrir tæpum 40 árum hefur nýgengi HIV-sýkinga verið nokkuð stöðugt hvað varðar sjúklinga með íslenskt ríkisfang. Hlutur þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir hefur farið vaxandi undanfarin ár. Fjórir einstaklingar greindust hér með alnæmi árið 2019. Sjá einnig umfjöllun í Farsóttarskýrslu 2019. Það sem af er árinu 2020 hafa 32 einstaklingar greinst með HIV-sýkingu.

Á Íslandi er gott aðgengi að meðferð og umönnun vegna HIV smits sem gerir þeim sýktu mögulegt að lifa nánast eðlilegu lífi. Ef ekkert er að gert leiðir HIV smit til alnæmis sem er banvænn sjúkdómur.

  • Hvatt er til þess að fólk ræði um HIV og fari í próf á heilsugæslustöð.

  • Rétt meðferð kemur í veg fyrir að sjúkdómur þróist og eykur mjög líkur á góðu lífi.

  • Rétt meðferð dregur verulega úr líkum á því að smit berist á milli manna.

Sóttvarnalæknir