Fara beint í efnið

24. apríl 2019

Alþjóðleg vika tileinkuð bólusetningum í Evrópu

Undanfarin ár hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkað bólusetningum í Evrópu eina viku á ári og í ár eru það dagarnir 24.–30. apríl. Átakið er stutt af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC).

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Undanfarin ár hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkað bólusetningum í Evrópu eina viku á ári og í ár eru það dagarnir 24.–30. apríl. Átakið er stutt af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC).

Í ár er vikan tileinkuð almenningi, heilbrigðisstarfsmönnum, foreldrum og börnum sem með þátttöku og framlagi sínu í málefnum bólusetninga hafa bjargað hundruðum milljóna einstaklinga frá alvarlegum afleiðingum smitsjúkdóma.

Með bólusetningum er árlega komið í veg fyrir ótímabæran dauða 2–3 milljóna barna í heiminum öllum. Markmiðið með bólusetningum er að hindra farsóttir, útrýma smitsjúkdómum og draga úr hættulegum afleiðingum þeirra. Á Íslandi má fullyrða að bólusetningar hafa komið í veg fyrir alvarlegar afleiðingar smitsjúkdóma hjá tugum þúsunda einstaklinga.

Þó að bólusetningar hafi komið í veg fyrir milljónir alvarlegra sjúkdómstilfella (einkum hjá börnum) á síðasta ári þá greindust fleiri einstaklingar með mislinga í Evrópu á árinu 2019 en sést hafa í langan tíma vegna lélegrar þátttöku í bólusetningu. Á árinu 2019 greindust rúmlega 80.000 einstaklingar með mislinga í Evrópu, um 60% þeirra þurftu á sjúkrahúsvist að halda og um 80 (0,1%) létust.

Með alþjóðlegu bólusetningarvikunni vill WHO einnig benda á að bólusetningar eru ein hagkvæmasta og árangursríkasta aðgerð sem völ er á til að koma í veg fyrir alvarlega smitsjúkdóma hjá öllum aldurshópum. Því eru allar þjóðir hvattar til að tryggja börnum og fullorðnum gott aðgengi að bólusetningum.

Á Íslandi hafa bólusetningar komið í veg fyrir margar alvarlegar sýkingar og greinast hér vart lengur þeir sjúkdómar sem bólusett er gegn. Til þess að tryggja þennan árangur til lengri tíma mega yfirvöld og almenningur ekki sofna á verðinum og kappkosta þarf að halda hér uppi góðri almennri þátttöku.

Á vef Embættis landlæknis má finna töflu yfir þá sjúkdóma sem bólusett er gegn. Taflan sýnir hvaða fæðingarárgangar hafa verið bólusettir í almennum bólusetningum á Íslandi og gegn hvaða smitsjúkdómum. Einnig má finna þar skýrslu sem gefin er út árlega af sóttvarnalækni um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi. Þar má líka finna lista sem sýnir hversu alvarlegar afleiðingar sjúkdómar sem bólusett er gegn geta haft, og hver dánartíðni þeirra er.

Sóttvarnalæknir