6. apríl 2018
6. apríl 2018
Alma Dagbjört Möller tekin við embætti landlæknis
Nýr landlæknir, Alma Dagbjört Möller, tók til starfa nú í vikunni.
Nýr landlæknir, Alma Dagbjört Möller, tók til starfa nú í vikunni. Alma er fyrsta konan til að gegna embættinu í 258 ára sögu þess en fyrsti landlæknirinn var skipaður hér á landi árið 1760.
Alma er með sérfræðiviðurkenningu í svæfinga-og gjörgæslulækningum sem og í heilbrigðisstjórnun auk doktorsgráðu í svæfinga- og gjörgæslulækningum og meistarapróf í stjórnun og lýðheilsu. Þá leggur hún stund á nám í opinberri stjórnsýslu. Frá árinu 2014 var Alma framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala auk þess að hafa um árabil verið yfirlæknir á svæfinga- og gjörgæsludeildum spítalans. Í ríflega áratug starfaði hún við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð og gengdi meðal annars stjórnunarstöðum þar auk sérfræðingsstarfa á svæfinga- og gjörgæsludeildum.
Verkefni landlæknis og embættisins eru fjölþætt eins og sjá má í 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Meðal þeirra er að veita ráðgjöf til ráðherra, almennings og allra þeirra sem um heilbrigðismál og lýðheilsu fjalla.
Nýr landlæknir mun leitast við að slík ráðgjöf verði ætíð byggð á gagnreyndri eða bestu þekkingu, með hagsmuni sjúklinga og notenda, svo og almannaheill í forgrunni. Annað stórt verkefni nýs landlæknis verður að stuðla að auknum gæðum og öryggi í heilbrigðisþjónustu. Það mun kalla á aukið eftirlit af hálfu embættisins auk þess sem vísbendingar liggja þegar fyrir um að efla þurfi eftirlit. Að lokum má nefna að landlækni ber að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra aðila og verður það meðal sérstakra áhersluatriða nýs landlæknis.
Þá vill nýr landlæknir viðhalda trausti á embættið með gagnreyndri umfjöllun allra mála, vandaðri stjórnsýslu og góðri samvinnu við alla þá aðila sem að heilbrigðismálum koma.
Til upplýsinga fyrir fjölmiðla:
Fyrirspurnir til landlæknis er hægt að senda á: mottaka@landlaeknir.is og í síma 5101900.