31. janúar 2019
31. janúar 2019
Ábending til foreldra og lækna vegna leikfangaslíms
Neytendastofa beinir, á heimasíðu sinni, þeim tilmælum til neytenda að hætta strax notkun ákveðins leikfangaslíms og skila því til söluaðila.
Neytendastofa beinir, á heimasíðu sinni, þeim tilmælum til neytenda að hætta strax notkun ákveðins leikfangaslíms og skila því til söluaðila, sjá frétt.
Þekkt er að leikfangaslím inniheldur næstum alltaf bórat (bórax, bórsýra, perbóröt o.fl.). Við rannsókn í Bretlandi kom í ljós að í 11 tegundum slíms var magn bórats yfir leyfilegum mörkum sem sett eru af Evrópusambandinu. Mest var magnið ferfalt yfir mörkum. Magn bórats er ekki tilgreint á umbúðum. Þá getur magn bórats einnig verið hátt í slími sem neytendur blanda sjálfir.
Af þessu tilefni vill Embætti landlæknis benda á að eiturverkanir vegna bórata geta verið alvarlegar og geta efnin borist í gegnum húð við handfjötlun. Þekktar eiturverkanir af bórötum eru m.a. húðerting með útbrotum (jafnvel mikill roði og blöðrur), skjálfti, flog, höfuðverkur, meltingartruflanir, þunglyndi og örlyndi. Þekkt eru dæmi um eitranir hjá börnum sem rekja má til slíms og a.m.k. eitt slíkt tilfelli hérlendis.
Landlæknir vill því beina því til foreldra að fylgjast með börnum sínum sem blanda og leika sér með slím og sömuleiðis beina því til lækna að vera á varðbergi gagnvart slíkum einkennum.
Ef fólk veit um slík tilvik er óskað eftir að Neytendastofu verði tilkynnt um þau með tölvupósti á postur@neytendastofa.is