10. júlí 2024
10. júlí 2024
Þessi frétt er meira en árs gömul
90% stóðust íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt
Íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt voru haldin dagana 14. til 31. maí. Gleðilegt er að segja frá því að af þeim 460 sem tóku prófið, stóðust 90% þær grunnkröfur sem gerðar eru til íslenskukunnáttu fyrir íslenskan ríkisborgararétt.

Metfjöldi var skráður í prófið að þessu sinni. Prófið var haldið í 21 lotu í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Prófin eru haldin tvisvar á ári í Reykjavík og á Akureyri, og einu sinni á ári á Egilsstöðum og Ísafirði, að vori.
Eitt af grunnskilyrðum sem umsækjendur verða að uppfylla er að hafa staðist próf í íslensku fyrir íslenskan ríkisborgararétt. Prófið miðast við lokamarkmið í grunnnámi í íslensku fyrir útlendinga (240 stundir), samkvæmt námskrá barna- og menntamálaráðuneytisins. Það samsvarar A1-A2 færnimarkmiði út frá viðmiðunarramma Evrópuráðs fyrir erlend tungumál (Common European Framework of Reference for Languages).
Sýna þarf fram á að geta:
bjargað sér við daglegar aðstæður í skóla, vinnu og einkalífi.
bjargað sér við óvæntar aðstæður.
tekið þátt í umræðum um kunnugleg málefni.
skilið einfaldar samræður.
lesið stutta texta á einföldu máli.
skrifað stutta texta á einföldu máli.
greint aðalatriði í sjónvarpi, útvarpi og dagblaði.
Næstu íslenskupróf fyrir ríkisborgararétt munu fara fram í nóvember/desember 2024 og verða auglýst á heimasíðu Mímis, www.mimir.is.