Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

1. febrúar 2007

Þessi frétt er meira en árs gömul

218 milljónum veitt til aukins umferðareftirlits

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Karl Ragnars forstjóri Umferðarstofu og Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri kynntu í dag, 1. febrúar, nýja samstarfssamninga um sérstakt umferðareftirlit lögreglu og sjálfvirkt hraðaeftirlit.

Nýju samningarnir gera ráð fyrir að varið verði 218 milljónum króna til aukins umferðareftirlits á næstu tveimur árum. Fjármagninu verður varið í 11 nýja öndunarsýnamæla og meðfylgjandi tölvubúnað að andvirði um 16,5 milljóna króna.

Keypt verða 8 ný bifhjól með Eyewitness búnaði sem auðveldar lögreglumönnum að vera einir við störf. Einnig verður um 9 milljónum króna varið í kaup á ratsjártækjum með myndavélum fyrir núverandi lögreglubifhjól og um 27 milljónum til kaupa á slíkum tækjum fyrir lögreglubifreiðar. Mikilvægt er að auka bifhjólaeign lögreglunnar, enda hafa kannanir sýnt að árangur við eftirlit á bifhjólum er mun meiri en með bifreiðum.

Þá verður 16 sjálfvirkum hraðamyndavélum komið fyrir víðs vegar um landið og mun Vegagerðin fjármagna tæknilegan rekstur þeirra á samningstímanum. Jafnframt verður lögregluembættum úthlutað 125,5 milljónum til sérstakts umferðareftirlits og úrvinnslu sekta og tæknivinnu.