3. júlí 2024
3. júlí 2024
Bólusetningar líffæraþega
Í lok síðasta mánaðar birtist frétt um að sjúklingar sem væru í bið eftir líffæraskiptum þyrftu að greiða háar fjárhæðir í bólusetningar.
Sjúkratryggingar höfðu ekki fengið upplýsingar um þetta fyrr en við lestur fréttarinnar en slíkar ábendingar höfðu því miður ekki verið sendar stofnuninni. Rétt þótti að skoða málið enda greiða Sjúkratryggingar allan kostnað við líffæraskipti, auk kostnaðar vegna ferðar til Svíþjóðar og uppihalds sjúklings og fylgdarmanns.
Sjúkratryggingar hafa gert samning við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg en sjúkrahúsið er aðili að samtökum um líffæraskipti sem kallast Scanditransplant. Við skoðun málsins kom í ljós að fyrir nokkru síðan herti Scanditransplant skilyrði sín gagnvart þeim sem eru á biðlista fyrir líffæri með því að gera kröfu um tilteknar bólusetningar. Þar sem um er að ræða skilyrði fyrir því að fá aðgerðina munu Sjúkratryggingar endurgreiða kostnað sjúklinga við bólusetningarnar. Greiðslur munu berast viðkomandi á næstu dögum og ekki er þörf á að sækja um endurgreiðslu. Varðandi þá sem eiga eftir að fá bólusetningar þá munu Sjúkratryggingar samþykkja umsóknir frá Landspítala um lyfjaskírteini og gilda þá almennar reglur um greiðsluþátttöku í lyfjum. Í framhaldinu munu Sjúkratryggingar ræða verklag vegna þessara bólusetninga við Landspítala sem ber ábyrgð á undirbúningi sjúklinga fyrir líffæraskipti.