Fara beint í efnið

24. júlí 2023

Samningur um rekstur 50 almennra dagdvalarrýma

Sjúkratryggingar og Heilsugæslan Höfða ehf. hafa gert með sér samning um rekstur 50 almennra dagdvalarrýma fyrir aldraða einstaklinga að Höfðabakka 9 í Reykjavík.

Heldriborgari - Sjúkratryggingar

Samningurinn gildir í fimm ár, frá og með 1. júlí 2023.

Markmiðið með samningnum er að veita notendum einstaklingsmiðaða þjónustu í þeim tilgangi að auka og viðhalda virkni í daglegu lífi og fresta sem lengst þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili. Þjónustan verður aðlöguð að þörfum hvers notanda þannig að þeir einstaklingar sem búa heima fái viðeigandi stuðning. Með þessu verður mynduð samfella í þjónustunni.

Þjónustan verður fyrst um sinn í boði alla virka daga frá kl. 8-17. Notendur þjónustunnar geta sótt hana daglega, tiltekna daga í viku hverri eða hluta úr degi. Stefnt er að því að aðlaga opnunartíma þjónustunnar að þörfum notenda þannig að opnunartími verði lengdur það er að opið verði til kl. 21 alla virka daga og á laugardögum frá kl. 8-16, að undanskildum sérstökum frídögum og stórhátíðardögum. Verður þetta þá fyrsta almenna dagdvalarþjónustan á höfuðborgarsvæðinu með sveigjanlegan opnunartíma. Þjónustustig við notendur verður þar af leiðandi aukið og betur komið til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þeirra. Þetta er í samræmi við þingsályktun um aðgerðaráætlun um þjónustu fyrir eldra fólk árin 2023-2027.

Heimahjúkrun Reykjavíkur, heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og sérgreinalæknar geta vísað í þjónustuna.