Fara beint í efnið

6. júní 2023

Námskeið í umboðsveitingu hjálpartækja

Þriðjudaginn 13. júní 2023 verður námskeið í umboðsveitingu hjálpartækja.

Sjúkra - hjólastóll

Námskeiðið er ætlað iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum með háskólamenntun sem koma að hjálpartækjaráðgjöf og umsóknum/úthlutun hjálpartækja.

Sjúkratryggingar vinna stöðugt að umbótum með það að markmiði að bæta þjónustu fyrir notendur hjálpartækja. Einn liður í því er að einfalda og stytta umsóknarferlið með því að fagaðilar fái umboð til að úthluta einfaldari hjálpartækjum beint.

Með einfaldari hjálpartækjum er átt við þau hjálpartæki sem ekki krefjast mikillar séraðlögunar eins og sokkaífærur, griptangir, einfalda sturtustóla, baðkersbretti, göngugrindur, einfalda hjólastóla, stuðningsstangir, salernisupphækkanir, stuðningshandföng á rúm og svampsessur.

Þetta er fyrirkomulag sem er sambærilegt og hefur tíðkast víða á Norðurlöndum og reynst vel. Með þessu móti er hægt að stytta biðtíma notenda eftir einföldum nauðsynlegum hjálpartækjum enn frekar. Við höfum kallað þetta umboðsveitingu.

Athugið að ekki er hægt að sækja um stoð og meðferðartæki í gegnum umboðsveitingu.

Til að fá aðgang til að úthluta hjálpartækjum í gegnum umboðsveitingu þarf að vera viðstaddur/stödd stutt námskeið í gegnum TEAMS. Námskeiðið tekur um það bil eina og hálfa klukkustund.

Þeir sem hafa áhuga á að fá aðgang að umboðsveitingu hjálpartækja eru vinsamlega beðnir um senda póst á netfangið edda.valtysdottir@sjukra.is eða hjalpart@sjukra.is fyrir 12. júní.