14. nóvember 2022
14. nóvember 2022
Samningum og umsóknum fjölgar verulega
Síðustu ár hefur þeim erindum sem berast Sjúkratryggingum fjölgað umtalsvert. Þegar borinn er saman fjöldi helstu erinda milli áranna 2018 og 2022 (tölur fyrir árið 2022 eru uppreiknaðar til heils árs) má sjá að veruleg aukning hefur orðið í nær öllum málaflokkum.
Veruleg fjölgun er í nær öllum flokkum erinda og umsókna til Sjúkratrygginga.
Sjúkratryggingar gerðu í fyrra nær þrefalt fleiri nýja samninga en árið 2018.
Umsóknum til Sjúkratrygginga um meðferð erlendis vegna langs biðtíma hér á landi hefur
fjölgað verulega síðustu ár.Umtalsverð fjölgun er almennt í umsóknum í flóknari málum sem krefjast aðkomu lækna,
tannlækna, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara eða lyfjafræðinga.Fjöldi umsókna um lyfjaskírteini hefur tvöfaldast.
Síðustu ár hefur þeim erindum sem berast Sjúkratryggingum fjölgað umtalsvert. Þegar borinn er saman fjöldi helstu erinda milli áranna 2018 og 2022 (tölur fyrir árið 2022 eru uppreiknaðar til heils árs) má sjá að veruleg aukning hefur orðið í nær öllum málaflokkum. Til að mynda hefur umsóknum um brýna meðferð erlendis (þ.e. mjög flókin meðferð sem ekki er hægt að veita hérlendis vegna skorts á sérhæfðri þekkingu eða tækjabúnaði) fjölgað um tæplega 50%, umsóknum um meðferð erlendis vegna langs biðtíma um tæplega 270% og umsóknir um lyfjaskírteini hafa tvöfaldast á tímabilinu; nú afgreiða Sjúkratryggingar um 150 umsóknir á hverjum virkum degi. Í þeim örfáu tilvikum þar sem um samdrátt er að ræða í einhverjum málaflokki, er hann mun minni en aukningin í öðrum flokkum. Sjá meðfylgjandi töflu.
Fjöldi nýrra samninga þrefaldast á þremur árum
Sjúkratryggingar gerðu á síðasta ári nánast þrefalt fleiri nýja samninga en árið 2018 en það er árið áður en heilbrigðisstefna var gefin út. Þessi mikla aukning á árinu 2021 tengist að hluta til COVID en það sem af er ári 2022 hafa verið gerðir ríflega þriðjungi fleiri samningar en allt árið 2018. Þessi mikla aukning í nýjum samningum er þrátt fyrir að ekki hafi enn náðst samningar um þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna. Sú vinna sem lögð hefur verið í þær samningaviðræður af hálfu Sjúkratrygginga kemur því ekki fram í þessum tölum. Af þeim 72 samningum sem gerðir voru árið 2021 voru fjórir við ríkisstofnanir, átta við sveitarfélög en 60 við einkaaðila, sjálfseignarstofnanir, hlutafélög o.s.frv. Þegar litið er til allra þeirra samningsskjala sem undirrituð voru á milli áranna 2018 og 2021, þ.e.a.s. nýrra samninga ásamt viðaminni samkomulögum, breytingum, viðaukum, framlengingum o.s.frv., má sjá að fjöldinn ríflega tvöfaldaðist. Þessa aukna framleiðni Sjúkratrygginga við samningagerð má rekja til krafna heilbrigðisstefnu, sem sett var árið 2019, og auknum framlögum til heilbrigðisþjónustu. Á sama tíma og verkefni stofnunarinnar hafa aukist svo mjög hafa föst opinber framlög til rekstrar hennar lækkað á föstu verðlagi.