Fara beint í efnið

20. júní 2022

Vegna fréttar í Morgunblaðinu 20. júní 2022

Vegna fréttar Morgunblaðsins um greiðslur fyrir blóðsýnatökur vilja Sjúkratryggingar árétta að Landspítali annast blóðsýnatökur fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en rannsóknarstofan Sameind annast þessa þjónustu fyrir hönd einkareknu heilsugæslustöðvanna, en af fréttinni mátti ráða að það væri starfsfólk heilsugæslustöðvanna sjálfra. Málið er nú í skoðun hjá Sjúkratryggingum.

Sjúkratryggingar lógó

Upphaf málsins er að nýlega hefur komið í ljós að skráning koma á heilsugæslu vegna blóðsýnatöku hefur farið fram með ólíkum hætti hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og a.m.k. hluta af einkareknu heilsugæslustöðvunum. Hefur þessi staðreynd m.a. komið til umræðu í starfshópi Heilbrigðisráðuneytisins um endurskoðun á fjármögnun heilsugæslunnar. Fulltrúar bæði einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva eiga sæti í starfshópnum, auk Sjúkratrygginga. Málið snýst um það hvort koma sjúklings í blóðrannsókn, á aðra heilsugæslustöð en hann er skráður hjá, skuli skrást sem koma á heilsugæslustöðina og þar með fela í sér að sú stöð sem sem viðkomandi sjúklingur er skráður hjá, verði að bera ákveðinn kostnað. Verið er að fara yfir skráningu allra blóðsýna sem tekin eru á heilsugæslum til að tryggja samræmi í kostnaðarþátttöku, óháð rekstrarformi.

Sjúkratryggingar vísa alfarið á bug aðdróttunum formanns Læknafélags Reykjavíkur um tilhæfulausa reikningsgerð og lögsóknir fyrir fjárdrátt. Ummæli formanns Læknafélags Reykjavíkur um að viðskiptahættir Sjúkratrygginga séu með öðrum hætti gagnvart einkareknum stöðvum en þeim opinberu eiga sér enga stoð og undrast stofnunin slíkar fullyrðingar í umfjöllun um mál sem er til skoðunar í góðu samstarfi allra aðila.