Fara beint í efnið

13. apríl 2022

Nýr samningur um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hafa gert með sér nýjan samning um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimm ára. Í samningnum felast ýmis nýmæli sem miða að því að þróa og efla þjónustuna, með áherslu á aukið samstarf aðila um framkvæmd samningsins, þátttöku SHS í innleiðingu tækni- og fjarheilbrigðislausna og ákvæði sem festir hlutverk vettvangsliða í sessi. Samningurinn hefur verið formlega undirritaður og staðfestur af Maríu Heimisdóttur forstjóra SÍ, Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra, Degi B. Eggertssyni formanni stjórnar SHS og Runólfi Pálssyni forstjóra Landspítala, á slökkvistöð SHS í Skútahrauni í Hafnarfirði.

2022-04-13-samningur-um-sjukraflutninga

Til marks um umfang þjónustunnar sem samningurinn fjallar um nemur kostnaður vegna hennar vel á annan milljarð króna á ári. Samningurinn er gerður á grundvelli fjárveitinga til verkefnisins og byggir í grundvallaratriðum á samningi aðila um sjúkraflutninga sem gerður var haustið 2014. Fjármögnun hans felst annars vegar í fastri mánaðarlegri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og Landspítala og hins vegar í greiðslum fyrir hvern flutning. Hann tekur til allra sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu auk flutninga fyrir Landspítala.

Áhersla á gæði og þróun þjónustunnar

Í þessum nýja samningi er lögð aukin áhersla á gæði þjónustunnar, gæðavísa til að meta gæði og árangur þjónustunnar. Auk þess er lögð aukin áhersla á samstarf aðila um framkvæmd samningsins, þátttöku SHS í innleiðingu tækni- og fjarheilbrigðislausna sem ætlað er að styðja við og bæta þjónustuna. Þá verða vettvangsliðar hluti af viðbragðskerfi sjúkraflutninga sem tryggir hlutverk þeirra sem fyrsta viðbragð á vettvangi í sessi. Jafnframt er stefnt að því á samningstímanum verði gerðar ákveðnar breytingar í sjúkraflutningum með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni í þjónustunni. Með aukinn samvinnu og samþættingu heilbrigðisþjónustu er markmiðið að draga úr þörf fyrir sjúkraflutninga með því að veita fullnægjandi úrlausn á staðnum.

Víðtæk þjónusta í þágu einstaklinga og almannahagsmuna

Eigendur SHS eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær. Hjá SHS vinna rúmlega 200 einstaklingar, á fjórum starfsstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemin er fjölbreytt, á sviði forvarna og útkallsþjónustu á þjónustusvæði, sem nær yfir öll ofangreind sveitarfélög. Sjúkraflutningum er sinnt á öllu svæðinu auk verkefna utan þess, slökkvistarf er unnið samkvæmt lögum um brunavarnir, almannavörnum, björgun úr sjó, vötnum og utan alfaraleiða ásamt öflugu eldvarnaeftirliti. Á árinu 2021 voru boðanir í sjúkraflutninga 42.150, þar af voru forgangsboðanir 9.848.