1. október 2025
1. október 2025
17 ný Erasmus+ samstarfsverkefni styrkt um nær 500 milljónir króna
Í sumar veitti Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi 17 styrki til nýrra samstarfsverkefna á sviði menntunar og æskulýðsmála. Stjórnendur þessara verkefna og starfsfólk Landskrifstofu áttu góðan upphafsfund á Reykjavík Natura þann 25. september, fögnuðu góðum árangri og fóru yfir helstu atriði varðandi framkvæmd verkefna og þátttöku í Erasmus+.

Upphafsfundir Landskrifstofu eru haldnir til að fara yfir ýmis mikilvæg mál varðandi skyldur styrkhafa og stuðning sem þeir fá frá skrifstofunni í ferlinu. Rætt er um samninginn og samstarfshópinn, fjármál verkefna og kynningarstarf, svo dæmi sé tekið. Á þessum fundi fengu gestir einnig að heyra af reynslu Örvars Birkis Eiríkssonar af því að stýra Erasmus+ verkefni fyrir hönd Selaseturs Íslands og veitti innlegg hans dýrmæta innsýn inn í það sem hafa ber í huga þegar lagt er af stað með verkefni af þessu tagi.
Forstöðukona Landskrifstofunnar, Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, ávarpaði fundargesti og rifjaði upp tildrög samstarfsverkefna í núverandi mynd, en þeim er ætlað að styðja stofnanir og samtök í Evrópu í að vinna saman, deila reynslu og koma nýsköpun til leiðar á sviði menntunar og æskulýðsmála. Forgangsatriði Erasmus+ áætlunarinnar, inngilding, grænar áherslur, stafrænar áherslur og virk þátttaka í samfélaginu, hafi endurspeglast skýrt í þeim umsóknum sem hafa borist Landskrifstofu á tímabilinu og þeim verkefnum sem þegar hafa orðið að veruleika. Þá sé það gleðiefni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi lagt fram drög að reglugerð fyrir næstu kynslóð Erasmus+ þar sem byggt er á velgengni fyrri ára en leitast við að einfalda þar sem kostur er. Þannig séu send sterk skilaboð um að menntun og æskulýðsmál séu mikilvægasta leiðin til að fjárfesta í fólki og færni.
Mikil samkeppni er um styrki til Erasmus+ samstarfsverkefna. Þau verkefni sem sköruðu fram úr að þessu sinni hlutu samtals 3,4 milljónir evra eða 484 milljónir íslenskra króna. Þau þykja sýna fram á sannfærandi og metnaðargjörn áform og takast á við fjölbreytt viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að falla vel að markmiðum áætlunarinnar. Verkefnin leitast við að bæta daglegt líf, seiglu og færni fólks á ólíkum sviðum og efla inngildingu í samfélaginu. Nánari upplýsingar um styrkt verkefni má finna á yfirlitssíðu Erasmus+ yfir styrkúthlutanir.