11. febrúar 2025
11. febrúar 2025
112 dagurinn
Þann 11. febrúar ár hvert heldur Neyðarlínan upp á 112 daginn, til að minna á neyðarnúmer allra landsmanna.

Hjá HSN starfa fjölmargir sjúkraflutningamenn og aðrir viðbragðsaðilar sem gegna mikilvægum hlutverkum í neyðarþjónustu.
Sjúkraflutningafólk hjá HSN er vel þjálfað og öflugt og eru verkefnin oft krefjandi. Flestir sem starfa í sjúkraflutningum hjá HSN eru hlutastarfandi, eru mikið á vaktinni og þurfa að geta brugðist hratt við. Það er því nauðsynlegt að hafa gott bakland heimafyrir.
Sjúkraflutningafólk er eitt tannhjól í stórri keðju viðbragðsaðila. Unnið er náið með vettvangsliðum sem oft eru fyrstir á vettvang, svo eru björgunarsveitir, slökkvilið og lögregla. Saman mynda þessir hópar eina stóra heild.
Sjúkraflutningafólk eru oft fyrsta snerting sjúklings í erfiðum aðstæðum við heilbrigðiskerfið og skiptir fagleg fyrsta hjálp sköpum við slys eða bráðaveikindi.
Eysteinn Heiðar Kristjánsson, sjúkraflutningamaður á Húsavík segir aðstæður hjá sjúkraflutningafólki oft vera súrrealískar „þú ert kannski að halda barnaafmæli, færð útkall og stuttu síðar ertu kominn í bát vegna sjóslyss eða á snjósleða vegna snjóflóðs. Í litlu samfélagi erum við til staðar á mestu gleðistundum fólks en einnig á mestu sorgarstundunum.“
Við þökkum sjúkraflutningafólkinu okkar og öðrum viðbragðsaðilum fyrir sitt ómetanlega starf og óskum þeim innilega til hamingju með daginn.
Frekari upplýsingar um 112 daginn má finna á vefsíðunni 112.is