Fara beint í efnið

19. október 2018

100 ár frá upphafi Spánarveikinnar

Spánarveikin 1918–1919, sem var heimsfaraldur inflúensu, er ein alvarlegasta drepsótt sem gengið hefur yfir mannkynið fyrr og síðar.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Spánarveikin 1918–1919, sem var heimsfaraldur inflúensu, er ein alvarlegasta drepsótt sem gengið hefur yfir mannkynið fyrr og síðar. Talið er að 25–100 milljón manns hafi látist af völdum hennar. Upphaf Spánarveikinnar á Íslandi er gjarnan rakið til 19. og 20. október 1918 þegar sjúkir farþegar um borð í skipunum Willemoes frá Bandaríkjunum og Botníu frá Danmörku komu til landsins.

Fyrsta bylgja Spánarveikinnar gekk hér um sumarið 1918 fram á haustið og var kölluð júlíinflúensan. Hún var þá tiltölulega væg farsótt eins og víðar í nágrannalöndum okkar. Um haustið 1918 breytti inflúensan um eðli og varð að banvænni drepsótt bæði austan hafs og vestan. Þegar skipin komu til landsins 19. og 20. október 1918 var inflúensan hér þegar til staðar. Það er ekki hægt að fullyrða að illkynja Spánarveikin hafi borist hingað þessa daga. Víst er þó að farþegarnir báru fréttir af alvarlegri þróun veikinnar annars staðar. Víst er einnig að inflúensan sótti skyndilega mjög í sig veðrið hér á landi í byrjun nóvember 1918 með hárri dánartíðni á Suðvesturlandi, einkum í Reykjavík.

Talið er að um 500 manns hafi látist af völdum inflúensunnar hér á landi og um helmingur þeirra í Reykjavík þar sem 15.000 manns bjuggu. Flestir þeirra sem létust voru á aldrinum 20 til 40 ára.

Á þessum tíma var fátt um varnir og engin sértæk meðferð til. Af sóttvarnaráðstöfunum sem gripið var til og skiluðu árangri voru lokanir á samgönguleiðum til Norðurlands um Holtavörðuheiði og til Suðausturlands um Jökulsá á Sólheimasandi. Það eru einungis fá dæmi um að slíkar ráðstafanir hafi borið árangur í heiminum á þessum tíma. Átak sem Hjúkrunarnefndin, sem skipuð var af landstjórninni, stóð fyrir sýndi mikilvægi þess að viðhalda samfélaginu gangandi.

Heimsfaraldrar inflúensu ganga yfir með reglulegu millibili. Ekki er hægt að sjá fyrir hvenær það gerist og ekki er hægt að meta fyrirfram hve alvarlegir þeir verða.

Hér á landi eins og annars staðar er unnið að viðbragðsáætlunum við slíkum farsóttum. Þessar áætlanir eru unnar af sóttvarnalækni í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Miðast þær við að draga úr útbreiðslu í samfélaginu og skaðlegum áhrifum sjúkdómsins með bólusetningu og fyrirbyggjandi lyfjameðferð. Einnig verður reynt að draga úr mannfundum og ferðalögum eftir því sem auðið er til að tefja fyrir útbreiðslu veikinnar og jafnframt er reynt að efla innviði samfélagsins.

Sjá nánar Viðbúnaður gegn vá.

Sóttvarnalæknir