Fjölmiðlar og persónuvernd
Í umfjöllun fjölmiðla þarf að gæta að sanngirni og gagnsæi gagnvart þeim einstaklingum sem persónuupplýsingar varða, og að tryggja á upplýsingarnar séu áreiðanlegar.
Einstaklingur getur leitað til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands telji hann að umfjöllun sé ekki í samræmi við lög og reglur.
Hlutverk dómstóla
Þegar dagblöð, tímarit, netmiðlar eða sjónvarpsþættir fjalla um eða birta myndir af einstaklingum, jafnvel þó að í umfjölluninni séu persónuupplýsingar, fellur það í flestum tilfellum utan verksviðs Persónuverndar og er stofnunin þá ekki bær til þess að úrskurða með bindandi hætti um hvort vinnsla persónuupplýsinga á þeim vettvangi samrýmist ákvæðum laganna og reglugerðarinnar.
Fellur það í hlut dómstóla að meta hvort fjölmiðlar hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns eða gerst brotlegir við ákvæði laga nr. 90/2018 og reglugerðarinnar eða eftir atvikum önnur ákvæði laga.
Ábyrgð fjölmiðla
Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi og eru vettvangur umræðu og skoðanaskipta, upplýsinga og afþreyingar. Þeir njóta mikils frelsis svo þeir geti sem best upplýst almenning um atburði líðandi stundar og samfélagslega mikilvæg málefni.
Frelsi fylgir hins vegar ábyrgð og ber fjölmiðlum að halda lýðræðislegar grundvallarreglur í heiðri í öllum störfum sínum, virða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Í ljósi hins mikilvæga þjóðfélagslega hlutverks fjölmiðla gildir persónuverndarlöggjöfin eingöngu að takmörkuðu leyti um fréttamennsku í fjölmiðlum en í löggjöfinni er sérstök undantekning um fjölmiðlaumfjallanir.
Þjónustuaðili
Persónuvernd