Fara beint í efnið

Leyfi til dreifingar ösku utan kirkjugarðs

Umsókn um dreifingu ösku utan kirkjugarðs

Heimilt er að dreifa ösku látinna utan kirkjugarðs hafi það verið ósk hins látna.

Skilyrði fyrir dreifingu á ösku

Ákveðin skilyrði eru fyrir því að dreifing á ösku megi fara fram:

  • Aðeins má dreifa ösku yfir öræfi og sjó

  • Ösku má aðeins dreifa á einum stað 

  • Ekki má merkja eða auðkenna stað sem ösku var dreift á 

Ef dreifa á ösku á landi getur afgreiðsla umsókna tekið nokkurn tíma þar sem það getur þurft að leita upplýsinga um staðhætti. Góð aðferð við að finna hentugan stað er að nota Google Earth. Fljótlegra er að fá leyfi til dreifingar ösku á sjó.

Upplýsingar sem þurfa að fylgja umsókn

Þegar umsókn um dreifingu á ösku er send, þarf að liggja fyrir vilji hins látna, hvort sem viðkomandi hefur tjáð það skriflega eða með öðrum hætti. Ef ekki er til slík yfirlýsing, þá þurfa nánustu aðstandendur hans að gefa yfirlýsingu um að það hafi verið ósk hins látna að öskunni verði dreift. Það er nægilegt að maki gefi yfirlýsinguna, en ef börn hins látna eru umsækjendur, þá þarf meirihluti þeirra að standa að umsókninni.

Upplýsa þarf um staðsetningu og staðhætti þar sem fyrirhugað er að dreifa öskunni. Ef það á að dreifa henni á landi þarf staðsetningin að vera nokkuð nákvæm. 

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum varðandi umsóknina er hægt að hafa samband við truoglif@syslumenn.is

Leyfi og dreifing

Ef skilyrði og upplýsingar sem fylgja eru fullnægjandi veitir sýslumaður leyfið og dreifing getur farið fram. Duftkerið er varðveitt í líkhúsi þar til að dreifingu öskunnar kemur. 

Þegar búið er að dreifa ösku skal duftkeri skilað til Bálstofunnar í Reykjavík til eyðingar eins fljótt og hægt er. Einnig þarf að fylla út yfirlýsingu um að dreifing ösku hafi farið fram í viðurvist tveggja vitundarvotta.

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki má nálgast umsókn á pdf formi hér

Umsókn um dreifingu ösku utan kirkjugarðs