Fara beint í efnið

Málefni:

Fyrirtæki
Styrkir

Viðspyrnustyrkur

Umsóknir um viðspyrnustyrki

Fyrir hverja?

Styrkirnir eru ætlaðir rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins. Styrkirnir verða greiddir út mánaðarlega fyrir einn mánuð í senn og hafa gildistíma frá nóvember 2020 og út desember 2021.

Hvaða skilyrði eru sett?

Lög um styrkina hafa verið samþykkt á Alþingi. Þar kemur fram að rekstraraðilar sem hafa vegna heimsfaraldursins orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 30. nóvember 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk.

Styrkfjárhæð verður ekki hærri en 90% af rekstrarkostnaði umsækjanda, þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili.

Að auki eru eftirfarandi þrjú viðmið sett fram um styrkfjárhæðir:

 • 40–60% tekjufall: 300 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 1,5 milljónir króna.

 • 60–80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna.

 • 80–100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna.

  • Heimilt er að miða fjölda stöðugilda við fjölda þeirra í sama mánuði 2019.

Önnur helstu skilyrði laganna:

 • Tekjufallið má rekja til heimsfaraldursins eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hans.

 • Tekjur í þeim mánuði sem sótt er um eru a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði 2019. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar skal miða við meðaltekjur á jafnmörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því hann hóf starfsemi til loka október 2020.

 • Tekjur frá 1. janúar 2020 til loka október 2020 voru a.m.k. 500.000 kr.

 • Rekstraraðili er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir komnar á eindaga fyrir lok árs 2019.

 • Rekstraraðili hafi staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur.

 • Rekstur hefur ekki verið tekinn til slita eða til gjaldþrotaskipta.

Upplýsingar vegna ríkisaðstoðar

Viðspyrnustyrkir fela í sér ríkisaðstoð. Hámarksstuðningur er 260 m.kr. að meðtöldum lokunarstyrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020, tekjufallsstyrkjum og ferðagjöf. Sé um fyrirtæki í erfiðleikum að ræða takmarkast heildarfjárhæð til viðkomandi rekstraraðila við 30 millj.kr. í samræmi við reglur um minniháttaraðstoð.

Hvar er sótt um?

Skatturinn sér um framkvæmd viðspyrnustyrkja. 

Athugið að umsóknir um viðspyrnustyrk þurfa að berast eigi síðar en 1.mars 2022.

Aðgerðir fyrir

Ekkert fannst með völdum málefnum og/eða leitarstreng