Fara beint í efnið

Börn - réttindi, velferð og skólaskylda

Samkvæmt lögum ber foreldrum að annast barn sitt, sýna því umhyggju og virðingu og gegna uppeldisskyldum svo best henti hag og þörfum þess.

„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.” Úr barnaverndarlögum.

Réttindi barna

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína og umgangast þá báða þótt þau búi ekki saman. Móðurinni er skylt að feðra barnið ef hún er hvorki í hjónabandi né skráðri sambúð.

Foreldrum er skylt að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og öðrum ógnunum.

Foreldrum ber að ala með barni sínu iðjusemi og siðgæði, afla því lögmætrar fræðslu og stuðla eftir mætti að því að barnið fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika og áhugamál.

Foreldrar skulu hafa samráð við barn sitt áður en ákvarðanir í málefnum þess eru teknar. Afstaða barnsins á að fá aukið vægi með aldri og þroska.

Öll börn eiga rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína, þótt þau búi ekki saman. Hvert einasta barn á rétt á nafni og ríkisfangi. 

Barnavernd og velferð barna

Barna- og fjölskyldustofa hefur tvö meginverkefni. Annars vegar viðfangsefni sem lúta að starfsemi barnaverndarnefnda sveitarfélaga og hins vegar yfirumsjón og eftirlit með rekstri sérhæfðra meðferðarheimila fyrir börn.

Markmið Barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð. Lögin taka til allra barna sem eru á yfirráðasvæði íslenska ríkisins.

Barnaverndaryfirvöld eru:

Slys á börnum eru tíð og því er það skylda fullorðinna að vera meðvituð um umhverfi barnsins. Þegar orsakir slysa eru skoðaðar kemur oft í ljós að koma hefði mátt í veg fyrir slysið með forvörnum og fræðslu.

Börn og einelti

Einelti er ofbeldi og félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann.

Einelti á sér stað á milli einstaklings og hóps eða tveggja einstaklinga. Einelti getur verið munnlegt, félagslegt, efnislegt, andlegt og líkamlegt.

Fórnarlamb eineltis upplifir sig óvelkomið og útilokað af hóp sem það getur ekki annað en tilheyrt, til dæmis skólabekk eða fjölskyldu.

Í mörgum grunnskólum hafa verið gerðar aðgerðaráætlanir vegna eineltis, enda er skylda að bregðast við þegar það kemur upp. Í skólunum er einnig unnið forvarnarstarf.

Einelti getur líka haft varanlegar skaðlegar afleiðingar fyrir gerandann.

Grunnskóli

Grunnskólinn er tíu ára skóli samkvæmt lögum. Almennt er gert ráð fyrir að nemendur hefji nám árið sem þeir verða 6 ára en lögin heimila þó að í vissum tilvikum geti nemendur byrjað fyrr eða seinna.

Sveitarfélög bera meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd grunnskólalaga, en mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með yfirumsjón málefna grunnskólans. Grunnskóli er skyldunám og er sveitarfélögum skylt að sjá öllum börnum á aldrinum 6 - 16 ára, sem þar hafa skráð lögheimili, fyrir skólavist.

Samkvæmt grunnskólalögum eiga börn og unglingar, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika og/eða fötlunar, rétt á sérstökum stuðningi í námi.

Foreldrar bera ábyrgð á því að nemendur innritist í grunnskóla og sæki skólann. Skólanefnd skal fylgjast með því að öll skólaskyld börn njóti lögboðinnar fræðslu.

Innritun barna sem eiga að hefja nám í grunnskóla fer fram á vormisseri þess árs sem barnið á að hefja nám og er innritun auglýst. Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar fást á vefjum grunnskóla og sveitarfélaga.

Ef börn flytja á skólaárinu þarf að tilkynna það og á það við um flutning milli hverfa, kjördæma og ef barnið hefur stundað nám í einkaskóla. Flutningseyðublöð og nánari upplýsingar eru á vefjum grunnskóla.

Nemendahópa sem flytjast í heild milli skóla að loknum 6. og 7. bekk þarf ekki að innrita.

Frístundaheimili

Í grunnskólum í stærri sveitarfélögum er haldið úti tómstundastarfi þegar hefðbundnum skóladegi 6 - 9 ára barna lýkur.

Ef foreldrar ætla að nýta sér þjónustuna þarf að skrá barnið í tíma. Á vefjum grunnskólanna er að finna allar upplýsingar um tómstundastarfið, hvað það kostar og fyrirkomulag þess.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Umboðs­maður barna