Auglýsingar um ábyrga hegðun í umferðinni
Framleiddar auglýsingar fyrir sjónvarp og vef sem ýta undir ábyrga hegðun í umferðinni
Árið 2024 var fyrsta auglýsingin í herferðinni Ekki geispa golunni framleidd og hófust sýningar á henni á síðustu dögum ársins. Hins vegar var hún að mestu birt 2025 ásamt því að fleiri auglýsingar innan herferðarinnar voru framleiddar og birtar það ár. Herferðin tekur á hættunni við svefn og þreytu við akstur og í tengslum við herferðina var reynt að koma bjargráðum til almennings, s.s. að hvíla sig vel fyrir akstur, hafa ekki of heitt eða of rólega tónlist í bílnum og margt fleira og ef allt annað bregst þá þarf einfaldlega að hætta akstri og leggja sig í 15-20 mínútur.
Samgöngustofa og Sjóvá sameinuðu krafta sína í þessari herferð gegn farsímanotkun undir stýri. Bendir herferðin á að þær aðgerðir sem við framkvæmum í símanum við akstur trufla jafn mikið og sambærilegar aðgerðir með öðrum tækjum en okkur dytti ekki í hug að nota þau tæki, hvorki nú né fyrir tíma snjallsímanna. Sem dæmi sýnir hún mann nota ritvél undir stýri en auðvitað dytti engum í hug að gera það - en að nota símann til að skrifa t.d. skilaboð truflar okkur þó jafnmikið og að nota ritvél við akstur... við lánum tækinu hugann, hendurnar og augun.
Í herferðinni var einnig lögð áhersla á láta fólk vita af akstursstillingu í símanum en í dag er hægt að stilla alla síma þannig að þeir gefa ekki frá sér hljóð á meðan á akstri stendur.
Sjáumst var herferð um notkun endurskinsmerkja sem Samgöngustofa og 66°Norður stóðu fyrir. Framleidd voru svört endurskinsmerki sem sjást varla á svörtum flíkum nema þegar ljós skín á þau og var þeim dreift í verslunum 66°N og hjá Samgöngustofu.
Árið 2023 var lögð rík áhersla á rafhlaupahjól og voru framleiddar og birtar auglýsingar sem ætlað var að stemma stigu við rangri notkun rafhlaupahjóla, þ.á.m. notkun þeirra undir áhrifum áfengis, notkun hjóla sem komast hraðar en leyfilegt er, notkun hjóla með farþega og notkun farsíma á meðan hjólin eru notuð. Herferðin var birt mjög víða á netinu og samfélagsmiðlum sem og á umhverfismiðlum, þ.e. á skiltum og í strætóskýlum. Auglýsingarnar voru birtar í samstarfi við VÍS og náðist þannig betri dreifing en ella hefði verið hægt að ná. Mikil þjóðfélagsumræða náðist um málefnið og má merkja mjög jákvæðar breytingar í kjölfar herferðarinnar, bæði hvað varðar slysatölfræði og hegðun og viðhorf.
Árið 2021 var framleidd auglýsing þar sem hvatt er til beltanotkunar á jákvæðan hátt. „Smellum saman“ er lag og tónlistarmyndband þar sem Króli og Rakel Björk syngja saman um ástina, öryggið og bílbeltin. Í texta, myndbandi og í dansi eru tilvísanir í mikilvægi þess að spenna beltin. Skilaboðin voru viljandi ekki alveg augljós enda stóð til að lagið og myndbandið gætu staðið sjálfstætt. Í lok myndbandsins fer svo ekki á milli mála hver skilaboðin eru þegar að „Smellum saman“ birtist með öryggisbelti og belta-smellu-hljóði. Ein vinsælasta TikTok stjarna landsins á þeim tíma, Lil Curly, var fenginn til þess að taka þátt í gerð myndbandsins og birta færslur um það á TikTok sem fengu hundruð þúsunda áhorf og má ætla að vel hafi verið náð til yngri áhorfenda.
Herferð Samgöngustofu í þeim tilgangi að koma lyfjum og vímuefnum úr umferð(inni). Merki herferðarinnar er rauði þríhyrningurinn sem flestir þekkja af umbúðum lyfja sem geta haft áhrif á aksturshæfni fólks.
Nánar um herferðina:
Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að fleiri ökumenn eru teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en fyrir ölvunarakstur. Það sem meira er, þetta hefur verið svona síðan árið 2013 og það sem af er þessu ári hafa 83% fleiri verið teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur en áfengis skv. tölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Undirbúningur þessarar herferðar hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár en árið 2018 var versta ár sem við höfum séð hvað varðar lyfja- og vímuefnaakstur. Tölurnar höfðu hækkað ár frá ári en þegar ljóst var í hvað stefndi árið 2018 varð talsverð þjóðfélagsumræða um þetta „nýja“ vandamál. Akstur undir áhrifum lyfja og vímuefna er vandamál sem er hulið samfélaginu að miklu leyti og er það von okkar að herferðin veki mikla umræðu og hvetji fólk til að aka ekki undir áhrifum lyfja og vímuefna og að fólk tali við þá aðstandendur sína sem þurfa að taka skilaboðin til sín.
Samgöngustofa hefur í samstarfi við auglýsingastofuna Pipar-TBWA hrundið af stað herferð til þess að hvetja ökumenn til að spara sér ekki 2 sekúndur við það að spenna á sig öryggisbeltin. Herferðin heitir 2 sekúndur og varpar hún ljósi á fáránleika þess að nota ekki öryggisbeltin.

Rannsóknir sýna að rétt tæplega 10% Íslendinga nota ekki öryggisbelti eða um 35 þúsund manns þó það taki aðeins 2 sekúndur að spenna þau. Ökumaður sem notar ekki bílbelti er í um 8 sinnum meiri hættu á að lenda í banaslysi en sá sem notar beltið. Þetta sést á samanburði á beltanotkunartíðni annars vegar og tíðni beltanotkunar þeirra sem látast í umferðarslysum hins vegar. Í rannsóknum á banaslysum þar sem fólk hefur ekki notað belti hefur komið í ljós að í langflestum tilfellum hefði viðkomandi bjargast hefði hann notað beltin.
Í samanburði við önnur Evrópulönd eru Íslendingar í 17. sæti hvað varðar almenna notkun öryggisbelta. Það tekur aðeins 2 sekúndur að breyta því og komast í 1. sæti.
Aðstoðarbílstjórinn, þ.e. farþegi í framsæti, gegnir mikilvægu hlutverki í bílnum, sérstaklega á langferðum. Hann þarf að sjá um síma ökumanns, stilla tónlist og hita og sinna börnunum í aftursætinu. Hér eru tvær myndir um annars vegar hlutverk aðstoðarbílstjórans og hins vegar hverju þarf að huga að áður en farið er af stað. Er ökuferðinni hér líkt við flugferð.
Auglýsingaherferðin Bílaballett fjallar almennt um umferðarmenningu og hvernig farsímanotkun virkar eins og sandur í annars vel smurða vél. Umferðin gengur öllu jöfnu snurðulaust fyrir sig en þegar einhver fer of seint af stað á ljósum eða keyrir úr takti við aðra umferð þá hefur það áhrif á aðra ökumenn sem þurfa að aðlaga aksturinn að þessum eina ökumanni í símanum sem aftur veldur því að fleiri ökumenn þurfa að keyra "úr takti".
Í samstarfi við Vínbúðina voru framleiddar þrjár nýjar auglýsingar sem segja má að hafi verið sjálfstætt framhald af eldri herferð, „Bara einn“. Í þeim auglýsingum er ljósi varpað á hversdagslegar aðstæður þar sem líklega enginn myndi samþykkja að áfengi væri haft um hönd og þær aðstæður bornar saman við akstur og spurningunni varpað fram hvort ölvun við akstur sé nokkuð skárri en ölvun við þessar aðstæður.
Árið 2017 voru framleiddar auglýsingar undir merkinu „Ekki gera neitt“ þar sem ráðist var gegn þeirri hegðun að þurfa sífellt að bregðast við pípi í símanum undir stýri. Seint í nóvember voru birtar auglýsingar á netinu með þessu slagorði þar sem venjulegu fólki var fagnað eins og hetju fyrir það eitt að láta símann eiga sig þegar hann kallaði á þau undir stýri. Milli jóla og nýárs voru birtar auglýsingar þar sem fólk var hvatt til þess að setja sér nýársheitið að gera ekki neitt (þegar síminn kallar á þig undir stýri) og voru auglýsingar af sama toga sýndar snemma í janúar 2018. Einnig voru framleiddar stuttar auglýsingar þar sem fólk var hvatt til þess að fagna skrítnum hátíðisdögum (t.d. StarWars deginum og degi þagnarinnar) með því að gera ekki neitt (þegar síminn kallar á þig undir stýri). Þessar stuttu auglýsingar voru sýndar árið 2018.
Þriðja Höldum Fókus herferðin leit dagsins ljós árið 2017. Í þetta skiptið var um að ræða viðburð í Smáralind þar sem sýndarveruleika og veltibíl var skeytt saman til þess að búa til þá lífsreynslu að vera í bíl sem veltur vegna þess að ökumaður var upptekinn við að horfa á símann sinn.
Þar sem um er að ræða upplifun með sýndarveruleika og veltibíl er erfitt að sýna myndbandið sem fólk sá inni í bílnum. Hér að neðan er hins vegar kynning um viðburðinn. Er hann í 360° svo ef horft er í síma þá færist myndin eftir því sem síminn hreyfist.
Farið var í herferð á SnapChat undir merkjum Höldum Fókus þar sem reynt var að hafa áhrif á farsímanotkun undir stýri. Í þeirri herferð voru fjórir þekktir snapparar látnir lenda í umferðarslysi á meðan þeir tóku upp snapp. Auðvitað lentu þeir ekki í alvöru slysi en sá sem horfði á snappið hélt að viðkomandi hefði slasast. Um 15-30 mínútum síðar sendu þau svo nýtt snapp þar sem fram kom að þetta hefði verið sett á svið en engu að síður væri stórhættulegt að senda og skoða SnapChat undir stýri.
Nú liggur það loks fyrir hvers vegna forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi sátu í bílsæti víðsvegar um höfuðborgina umkringdir kvikmyndavélum og tímavörðum. Hér má sjá myndband frá þessari stórskemmtilegu uppákomu en Bjarni (Sjálfstæðisflokkur), Sigmundur Davíð (Framsóknarflokkur), Katrín (Vinstri hreyfingin, grænt framboð), Guðmundur (Björt framtíð) og Helgi Hrafn (Píratar) kepptu í því hvert þeirra væri fljótast að spenna á sig bílbelti. Stysti tíminn var 1,36 og sá lengsti 2,8 sekúndur sem sýnir að það tekur enga stund að spenna á sig beltið en sú ákvörðun getur skipt sköpum. Allir sem spenna á sig bílbeltið eru hinir einu sönnu sigurvegarar.
Það getur borgað sig að vera í sigurliðinu. Þessum sekúndum er vel varið þegar þær geta bjargað lífi þínu? Spennum beltin - ALLTAF.
Herferðin Bara einn er einum of mikið beindist gegn ölvunarakstri. Var herferðin gerð í samstarfi við Vínbúðina. Inntakið í auglýsingunni var rauðvínsglas sem fylgt var eftir í veislu, út í umferðina og inn á slysadeild þar sem það breytist í blóðpoka. Skilaboðin voru þau að einum af hverjum þremur Íslendingum þyki í lagi að aka bíl eftir að hafa fengið sér einn áfengan drykk.
Með þau skilaboð í huga var einnig útbúinn trékassi með þremur „notuðum“ rauðvínsglösum þar sem eitt þeirra var brotið. Var slíkur kassi sendur á stjórnendur 20 stærstu fyrirtækja landsins með þeirri ósk að stjórnendur fyrirtækjanna viðhefðu smá umræðu um málefnið þegar fögnuður væri á vegum fyrirtækjanna. Einnig fengu þeir fræðsluefni á usb-lykli sem leit út eins og bíllykill.
Höldum fókus var herferð gegn farsímanotkun undir stýri. Gekk hún svo vel að á næstu árum voru framleiddar þrjár herferðir í viðbót undir sama nafni. Allar voru þær gegn farsímanotkun undir stýri en nálgunin var mjög ólík í hvert sinn.
Höldum Fókus 2013 var gagnvirkt myndband en með því að skrá sig inn í gegnum Facebook og skrá símanúmerið sitt fékk áhorfandinn gagnvirka upplifun sem var ólík öllu öðru sem fólk hafði upplifað. Myndbandið fjallar um stúlku sem fer út að keyra en allan tímann er hún að skoða myndir af Facebook reikningi áhorfandans og fær áhorfandinn meira að segja skilaboð frá stúlkunni - þ.e. í myndbandinu sést stúlkan senda sms og á sömu stundi fær áhorfandinn þau skilaboð í símann sinn. Allt er þetta gert til þess að áhorfandinn fái á tilfinninguna að hann þekki stúlkuna. Á endanum hringir stúlkan svo í númer áhorfandans og í kjölfarið lendir hún í slysi. Skjárinn verður svartur og síminn hjá áhorfandanum hringir. Myndbandið fer ekki af stað fyrr en svarað er í símann og þá heyrist í símanum sama lag og er í útvarpinu inni í bílnum ásamt skruðningum við það að stúlkan klifrar út úr bílnum.
Erfitt er að sýna myndbandið þar sem hver og ein birting myndbandsins er sérsniðin að áhorfandanum hverju sinni. Í staðinn er hér sýnt myndband um herferðina frá Lúðrahátíð Ímark 2013.
Auglýsing sem Umferðarstofa lét gera við lagið „I think of Angels“ eftir KK - Kristján Kristjánsson tónlistarmann. Í auglýsingunni kemur fram að á 10 árum létust 84 einstaklingar í umferðarslysum sem rekja má til þess að ekið var of hratt. Hugmyndasmiðurinn að baki auglýsingunni er Bjarney Hinriksdóttir, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Hvíta húsið en Sammi og Gunni hjá True North önnuðust leikstjórn.
Það eru margir sem halda að það sé allt í lagi að sleppa því að setja á sig öryggisbelti ef ökuhraðinn er lítill og vegalengdin stutt. Auglýsingarnar „Notum bílbeltin - alltaf" gera raunhæfan samanburð á því sem gerist við árekstur án öryggisbeltis og afleiðingum þess að falla til jarðar úr mismikilli hæð og lenda á jörðinni á 7, 20, 30 og 55 km hraða án öryggisbúnaðar. Umferðarstofa lét framleiða auglýsingarnar í samstarfi við tryggingarfélagið VÍS. Auglýsingastofan Hvíta Húsið vann hugmyndavinnu og hönnun en Filmus sá um framleiðslu.
Í apríl 2009 hóf Umferðarstofa ásamt Vínbúðunum að birta auglýsingaherferð á netmiðlum og í útvarpi sem ber heitið „Sá sem flöskustúturinn lendir á“. Með átakinu er ökumönnum gerð grein þeim afleiðingum sem ákvörðunin um að aka eftir neyslu áfengis getur haft. Mikill fjöldi fólks hefur þurft að upplifa alvarlegar afleiðingar ölvunaraksturs og sú ákvörðun að aka eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna getur komið niður á ástvinum, heilsu, framtíð, mannorði, frelsi og fjárhag viðkomandi. Voru gerðar sex auglýsingar, ein um hvern þátt sem gæti stútast.
Einnig var gerð gagnvirkur netborði þar sem notandi gátu snúið flöskunni og lenti hún þá á einni af auglýsingunum sex. Var þannig hægt að sjá hvernig þessir mikilvægu þættir geta breyst til verri vegar við það eitt að aka eftir neyslu áfengis.
Ætli einhverjum finnist í lagi að kennari, flugumferðarstjóri, tannlæknir eða kranastjóri neyti áfengis við vinnu sína með alla þá ábyrgð sem því fylgir? Án efa finnst það fáum ef einhverjum. Þrátt fyrir það eru u.þ.b. 50 þúsund Íslendingar þeirrar skoðunar að það sé í lagi að keyra eftir að hafa neytt eins áfengs drykks. Í þessari auglýsingaherferð er verið að vekja ökumenn til umhugsunar um alvarleika þess að aka undir áhrifum áfengis – jafnvel þótt aðeins hafi verið dreypt á einu glasi. Það er undirstrikað að ábyrgð ökumanns er síður minni en flugumferðarstjórans og það ættu ökumenn að hafa í huga þegar þeir velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að stjórna ökutæki eftir neyslu áfengis. Auglýsingin var unnin í samstarfi við Vínbúðina. Auglýsingastofan Hvíta húsið sá um hugmyndavinnuna en Sagafilm annaðist framleiðslu.
Auglýsingaherferðin „Fyrirgefðu ég sá þig ekki" er til að vekja bílstjóra til vitundar um mikilvægi þess að þeir hafi fulla athygli við aksturinn og gái að minnsta kosti tvisvar á gatnamótum hvort nokkur hætta sé á því að þeir aki í veg fyrir bifhjól. Það er mun erfiðara að greina fjarlægð og hraða bifhjóla en stærri ökutækja og ein algeng orsök alvarlegra umferðarslysa er að bílstjórar aka í veg fyrir bifhjól. Auglýsingastofan Hvíta húsið vann hugmynd auglýsingarinnar en framleiðslufyrirtækið Republik sá um framleiðslu.
Herferðinni er ætlað að vekja ökumenn til umhugsunar um ábyrgð sína í umferðinni þannig að þeir geri sér grein fyrir því að í raunveruleikanum er ekki hægt að hverfa frá misgjörðum sínum með því að ýta á „enter" eða velja „replay" til að byrja leikinn aftur fullfrískur og fjörugur. Auglýsingastofan Hvíta húsið annaðist hugmyndavinnu en gerð teiknimyndarinnar var í höndum „I love Dust" fyrirtækisins í Bretlandi.
Auglýsingin tekur á bílbeltanotkun og sýnir hún ungmenni inni í bíl eftir útafakstur. Aðeins einn þeirra er í belti. Hin stíga til himna hvert á fætur öðru en sá sem er í belti kemst ekki upp því hann nær ekki að losa beltið... á endanum vaknar hann og heldur um beltið.
Auglýsingin minnir með hræðilegum hætti á mögulegar afleiðingar þess að aka of hratt þar sem börn geta verið að leik. Hún minnir okkur á mikilvægi þess að aka ekki yfir hámarkshraða í 30 km/klst hverfum því ekkert okkar vill lenda í því að aka á barn.
Þessi auglýsing tekur á hegðun ökumanna með því að sýna áhrifin sem hegðun okkar hefur á börnin. Þó svo að hér sé aðeins tekið á blótsyrðum og munnsöfnuði í umferðinni þá er undirtónninn sá að börnin gera það sem við gerum, ekki það sem við segjum. Þetta á við á mun fleiri stöðum, s.s. þegar kemur að beltanotkun, hjálmanotkun, hraðakstri, farsímanotkun við akstur o.m.fl.
Auglýsingin Hægðu á þér, stundum kölluð Andlitin í götunni, birtist árið 2004 og minnir okkur á að afleiðingar hraðaksturs geta verið gríðarlega alvarlegar. Undir auglýsingunni er spilað lagið Vísur Vatnsenda-Rósu í flutningi Ragnheiðar Gröndal en myndmálið er látið tala sínu máli án texta eða tals. Flestir eða allir setja myndefnið í samhengi við að viðkomandi manneskja hafi látist á þessum stað í umferðinni. Auglýsingin vann gullverðlaun í helstu auglýsingasamkeppni Evrópu, Eurobest Award árið 2004 og var það í fyrsta og eina sinn sem íslensk auglýsing vinnur þau verðlaun.
Ein allra fyrsta herferðin sem Umferðarstofa stóð fyrir. Hér er afleiðingum umferðarslysa lýst á kaldhæðnislegan hátt; Lesni textinn undir sem lýsir afleiðingunum er jákvæður en myndefnið sýnir neikvæða mynd þess sem sagt er (t.d. "Þú gætir fengið forgang í umferðinni" en myndefnið sýnir sjúkrabíl í neyðarakstri). Gerðar voru þrjár auglýsingar; um beltanotkun, ölvunarakstur og hraðakstur.

Þjónustuaðili
Samgöngustofa