Almennar upplýsingar um atvinnuflug
Flutningaflug er flutningur á vörum og farþegum í flugi, gegn gjaldi. Þeir einir geta sinnt slíku flugi sem hafa til þess gilt flugrekendaskírteini og þá um leið flugrekstrarleyfi.
Flutningaflug
Einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki sem hyggjast starfrækja loftför í atvinnuskyni þurfa að vera handhafar flugrekendaskírteinis, útgefnum af flugmálayfirvöldum eða hafa skilað yfirlýsingu um sérstaka starfrækslu til flugmálayfirvalda
Slíkir aðilar geta flutt farþega og/eða frakt hvort sem um er að ræða farþegaþotur í millilandaflugi, stundað útsýnisflug á smærri loftförum eða stundað sérstaka starfrækslu sem felst í margskonar verkefnum t.d. rannsóknarverkefnum.
Áður en sótt er um flugrekendaskírteini eða skilað yfirlýsingu um sérstaka starfrækslu er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvers konar rekstur er gert er ráð fyrir að verði stundaður og þarf að hafa í huga eftirfarandi atriði:
Tegundir loftfara sem verður starfræktur.
Hvar ætlunin er að stunda starfsemi.
Umfang starfsemi.
Hvort ætlunin er að stunda sjónflug (t.d. útsýnisflug), blindflug eða að vera með sértækar heimildir.
Umsækjendur senda umsóknir á þar til gerðum eyðublöðum og eru kallaðir til viðtals þar sem farið er yfir meðhöndlun umsókna.
Ekki er hægt að fullyrða um hversu langan tíma tekur að fara yfir umsókn um flugrekendaskírteini, það er til dæmis háð gæðum innsendra gagna.
Þegar fyrirtæki fá flugrekendaskírteini framkvæmir Samgöngustofa ítarlega úttekt á höfuðstöðvum fyrirtækis og framkvæmir jafnframt leiðarflugsúttekt. Sama á við þá aðila sem hyggjast stunda sérstaka starfrækslu.
Greiðslur eru skv. gjaldskrá Samgöngustofu og felast í tímagjaldi.
Lög og reglur
Lög um loftferðir nr. 80/2022 og reglugerðum ESB nr. 965/2012 og 1008/2008.
Til þess að fá flugrekendaskírteini og flugrekstrarleyfi til flutningaflugs hérlendis þarf að sýna fram á að skilyrðum flugöryggisstofnunar Evrópu EASA (European Aviation Safety Agency) um stjórnun á flugrekstri og lofthæfi séu uppfyllt.
Ýmsir aðilar stuðla að flutningi á fólki og vörum milli Íslands og Evrópu en þeir verða að fá flugrekanda með tilskilin leyfi til að annast flugið fyrir sig. Það er ávallt flugrekandinn sem ber ábyrgð á fluginu.
Mikilvægt er að kaupendur þjónustu staðfesti að verksalar séu með starfsleyfi útgefin af Samgöngustofu en það er þó ávallt ábyrgð umráðanda loftfars að starfsemi sé í samræmi við lög og reglur.
Þeir flugrekendur sem hafa heimildir til flugrekstrar í ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu mega annast flutningaflug á milli Íslands og Evrópu (Evrópska efnahagssvæðisins). Þeir uppfylla kröfur ESB/EASA og þurfa ekki heimild frá íslenskum flugmálayfirvöldum.
Íslensk flugmálayfirvöld geta heimilað flugrekendum í öðrum ríkjum ICAO (Alþjóðaflugmálastofnunarinnar) að annast flutningaflug á milli þessara landa ef um er að ræða óreglubundið flug á borð við leiguflug og jafnvel áætlunarflug séu loftferðasamningar í gildi sem heimila slíka tegund fluga. Í reglugerð um slíkt flug er m.a kveðið á um að farið sé eftir stöðlum um öryggi sem Samgöngustofa metur samsvarandi þeim sem íslensk stjórnvöld áskilja. Því koma flugrekendur eða ríki sem eru á bannlista framkvæmdastjórnar Evrópu ekki til greina í slík flug og enn fremur þarf það ríki sem flogið er til í Evrópu að samþykkja flugið fyrir sitt leyti. Flugrekendur frá ríkjum utan EES svæðisins þurfa að vera handhafar TCO skírteinis frá EASA.
Við mat á áhættu af slíku flugi skal tekið tillit til þess hvort viðkomandi flugrekandi uppfylli ótvírætt kröfur ICAO um flutningaflug og eins er tekið mið af fjölda ferða og líkum á að eitthvað geti komið fyrir í fluginu.
Í nokkrum tilfellum hefur verið veitt heimild til að flytja vörur frá Íslandi með flugrekanda sem er ekki er vottaður af EASA. Það hefur venjulega verið bundið við einstök flug og vegna sérstakra aðstæðna t.d ef hagsmunir Íslendinga hafa verið miklir eða ekki hafa verið fyrir hendi flugrekenda á svæðinu með loftför sem hafa geta annast verkefnið.
Ekki er heimilt að fljúga með farþega, frakt eða stunda sérstaka starfrækslu gegn gjaldi eða í ábataskyni hér á landi nema samkvæmt gildu flugrekstrarleyfi fyrir flutningaflug eðayfirlýsingu um sérstaka starfrækslu til Samgöngustofu.
Frá þessari reglu eru þrjár undantekningar.
Flugkennsla.
Flugskólum og flugkennurum er heimilt að taka gjald fyrir flugkennslu til útgáfu eða viðhalds flugréttinda sem falla undir starfsheimildir þeirra.
Kynningarflug
Flugskólum og félögum sem stofnuð eru í þeim tilgangi að kynna sport- eða tómstundaflug er heimilt að taka gjald fyrir kynningarflug með eftirfarandi skilyrðum:
Fyrirtækið starfræki loftfarið á grundvelli eignarhalds eða tómaleigu.
Flugið skapi ekki hagnað.
Flug með aðra en þá sem eru meðlimir í viðkomandi fyrirtæki má aðeins vera lítill hluti af starfsemi fyrirtækisins.
Skipting kostnaðar í einkaflugi
Heimilt er að skipta kostnaði í einkaflugi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum, í samræmi við reglur Evrópusambandsins:
Flugið skal vera einkaflug með kostnaðarskiptingu milli einstaklinga (e. cost-shared flight by private individuals).
Beinn kostnaður vegna þess flugs sem um ræðir má einungis skiptast á milli allra um borð, þar með talið flugmanns. Hámarksfjöldi um borð, að flugmanni meðtöldum, er sex (6) manns.
Undir beinan kostnað telst kostnaður sem fellur til beint vegna viðkomandi flugs, t.d. eldsneyti, flugvallagjöld og leiga á flugvél. Í tilviki samnýttrar flugvélar (joint ownership) getur tímagjald sem eigandi greiðir fyrir notkun einnig talist til beins kostnaðar.
Ekki er heimilt að deila árgjöldum eða viðvarandi kostnaði við að eiga og reka loftfarið, svo sem viðhaldskostnaði, tryggingum eða öðrum föstum rekstrarkostnaði. Slíkur kostnaður telst ekki beinn kostnaður og má ekki koma inn í skiptingu.
Flugmaður verður að taka þátt í kostnaðarskiptingunni og má ekki hagnast á fluginu á neinn hátt. Enginn þáttur í kostnaðarskiptingunni má fela í sér hagnað.
Reglurnar gilda um önnur en flókin vélknúin loftför samkvæmt EASA flokkun, og einnig loftför sem eru skráð utan EES-svæðisins ef þau eru rekin af aðilum sem hafa búsetu eða aðsetur innan EES.
Viðbótarleiðbeiningar
Auglýsingar eða kynningar á flugi með kostnaðarskiptingu skulu skýrt taka fram að um sé að ræða einkaflug, ekki atvinnuflug samkvæmt reglum um farþegaflugrekstur.
Hugtakið „einstaklingur“ í þessu samhengi á við einstakling sem er flugmaður (og mögulega rekstraraðili) – ekki fyrirtæki eða stofnun.

Þjónustuaðili
Samgöngustofa