Fara beint í efnið

Afladagbók

Skipstjórum veiðiskipa með veiðileyfi í atvinnuskyni er skylt að halda sérstakar afladagbækur.

Hvers vegna afladagbók?

Fiskistofa notar upplýsingar úr afladagbókum í eftirlitsskyni með skráningu afla og tegunda. Hafnarverðir fá einnig upplýsingar úr afladagbókum. Skráning afladagbókar er nauðsynleg fyrir rekjanleika aflans. Veiðiferðin fær rekjanleikanúmer frá veiðum til vigtunar og áfram til vinnslu. Rekjanleiki afla er mikilvæg skráning vegna vottunar sjávarafla sem seldur er erlendis, oft inn á dýrustu markaði heims. Fiskistofa vottar útflutning afla, meðal annars hvort um afurðir úr löglega veiddum afla sé að ræða. Án vottunar gætu mikilvægir markaðir tapast.

Hafrannsóknarstofnun nýtir gögn úr afladagbókum við rannsóknir og Landhelgisgæslan nýtir gögnin í eftirlitsskyni.

Hvernig á ég að skila inn afladagbók?

Afladagbók á að skila áður en skip leggst að bryggju til löndunar í gegnum vefþjónustu með búnaði sem uppfyllir kröfur og hefur hlotið samþykki Fiskistofu.

Hvað á að skrá í afladagbók?

  • Nafn skips og skipaskrárnúmer.

  • Veiðarfæri, gerð og stærð.

  • Staðarákvörðun (breidd og lengd).

  • Afli eftir magni og tegundum.

  • Veiðidagur.

  • Löndunarhöfn og löndunardagur.

  • Sjófugl eftir fjölda og tegundum.

  • Sjávarspendýr eftir fjölda og tegundum.

  • Upplýsingar um afla, sem veiddur er en sleppt í samræmi við fyrirmæli laga eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla.

  • Upplýsingar um tíma veiðarfæra í sjó, hvenær þau eru lögð og hvenær þau eru tekin upp.

Mikilvægt er að skrá allar upplýsingar sem beðið er um á því formi sem skilað er inn á. Einnig á að skrá eins nákvæmlega og unnt er áætlað aflamagn og sjávarspendýr og fugla sem koma í veiðarfæri skipa.

Afladagbók ekki skilað

Ef skipstjóri skilar ekki afladagbók til Fiskistofu, skilar ekki á réttu formi eða innan tímamarka er bréf sent á útgerð og mál tekið til stjórnsýslumeðferðar innan stofnunarinnar. Ítrekuð brot geta leitt til veiðileyfissviptingar.

Vandamál

Ef skipstjórar lenda í vandræðum með stafrænar lausnir þá skal leita til þjónustuaðila þeirra lausna. Mikilvægt er að tilkynna Fiskistofu um bilun svo fljótt sem auðið er á netfangið afladagbok@fiskistofa.is.

Þjónustuaðili

Fiski­stofa