Fara beint í efnið

Verðmerkingar og réttur neytenda

Verð sem gefið er upp til neytenda á að vera rétt og endanlegt.

Almennt um verð

Uppgefið verð á að vera rétt og endanlegt. Virðisaukaskattur, þóknun, bókunargjald, frakt – hvers konar greiðsla án tillits til heitis – eiga að vera innifalin í uppgefnu verði.

Sé vara eða þjónusta auglýst með afborgunarkjörum á að taka fram staðgreiðsluverð og heildarverð með vöxtum og kostnaði að koma fram. Þá verður gera grein fyrir vaxtaprósentu eða lýsingu á kostnaði við lánið, lánstíma og fjárhæð hverrar afborgunar auk árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.

Aðeins má auglýsa útsölu eða aðra sölu á lækkuðu verði ef um raunverulega verðlækkun er að ræða. Fyrra verð er síðasta verð sem varan var seld á og það á að koma skýrt fram.

Verðmerking á vörum

Allar vörur í verslunum og sýningargluggum eiga að vera skýrt verðmerktar, annað hvort á vörunni sjálfri eða við vöruna. Þetta gildir um allar vörur sem seldar eru neytendum og tekur til allra verslana.

Verðmerking á þjónustu

Þjónustufyrirtæki, eins og til dæmis snyrtistofur og iðnaðarmenn, eiga að hafa uppi skýra verðskrá eða skilti með verði á allri þjónustu sem fyrirtækið veitir.

Verðupplýsingar eiga að vera hjá afgreiðslukassa eða á öðrum áberandi stað þar sem þjónustan er veitt.

Veitingahús skulu ávallt hafa matseðil með verðskrá við inngöngudyr. Í verðupplýsingum um drykkjarföng skal jafnframt tilgreina magnstærðir.

Rangt verð á sölustað og í auglýsingum

Almenna reglan er að verslanir eigi að selja vörur og þjónustu á því verði sem kemur fram á verðmerkingum og í auglýsingum. Þetta gildir þó ekki ef um augljós mistök er að ræða. Það gildir heldur ekki ef röng verðmerking er ekki á ábyrgð fyrirtækisins heldur hafi til dæmis annar viðskiptavinur breytt verðmerkingu eða fært vörur til.

Almennt fylgja verslanir því að neytendur fái vörur á því verði sem kemur fram í verðmerkingu sé ósamræmi á milli þess verðs og verðs í afgreiðslukassa, þar sem neytendur velja vöruna á grundvelli verðmerkingarinnar.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Neyt­enda­stofa