Vanskilaskrá og meðferð persónuupplýsinga
Á þessari síðu
Almennt
Vanskilaskrá er skrá sem inniheldur upplýsingar um vanskil einstaklinga, til dæmis ef þeir hafa ekki staðið í skilum með greiðslur.
Creditinfo Lánstraust hf. er eina fjárhagsupplýsingastofan sem hefur fengið leyfi frá Persónuvernd til að vinna með fjárhagsupplýsingar einstaklinga.
Meginreglan
Meginreglan er að fjárhagsupplýsingastofu er einungis heimilt að setja á vanskilaskrá upplýsingar sem teljast áreiðanlegar og hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhagsstöðu og lánstrausti einstaklings eða lögaðila.
Upplýsingar sem má ekki skrá
Aldrei má skrá viðkvæmar persónuupplýsingar, eins og um heilsufar eða upplýsingar um refsiverða háttsemi.
Ef réttmætur vafi er um lögmæti kröfu þá má fjárhagsupplýsingastofa hvorki skrá né miðla upplýsingum um hana til áskrifenda sinna.
Óheimilt er að skrá og miðla upplýsingum um kröfu ef skuldari hefur sannanlega andmælt henni gagnvart kröfuhafa nema ef andmæli skuldara eru augljóslega tilefnislaus.
Óheimilt er að miðla upplýsingum af vanskilaskrá ef krafa er ekki lengur í vanskilum, til dæmis ef hún hefur verið greidd eða henni verið komið í skil með öðrum hætti.
Óheimilt er að miðla upplýsingum um hversu oft einstaklingi hefur verið flett upp í skrám fjárhagsupplýsingastofu
Þín réttindi
Einstaklingar og lögaðilar hafa margvísleg réttindi samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni, bæði þegar fyrirhugað er að skrá upplýsingar á vanskilaskrá og jafnframt á meðan þær eru hafðar á slíkri skrá.
Það er mikilvægt að einstaklingar og lögaðilar fái fræðslu um þessi réttindi sín frá fjárhagsupplýsingastofu en það er forsenda þess að hægt sé að nýta sér réttindin.
Fyrir skráningu
Fjárhagsupplýsingastofa á meðal annars að veita einstaklingi og lögaðila fræðslu um fyrirhugaða skráningu í vanskilaskrá, og gera viðkomandi viðvart um áform sín.
Þetta felur í sér að senda formlega tilkynningu þar sem gefinn er frestur til að greiða skuldina eða koma á samkomulagi um greiðslu eða í um réttinn til að mótmæla skráningu og hvenær slík mótmæli eru tekin til greina af hálfu fjárhagsupplýsingastofu þannig að ekki verði af skráningu á vanskilaskrá vegna mótmælanna.
Eftir skráningu
Einstaklingar og lögaðilar hafa rétt til að fá meðal annars upplýsingar um hver vinnur með upplýsingarnar, hvaðan þær hafa fengist, hvers vegna og hvernig þær eru meðhöndlaðar.
Einstaklingar og lögaðilar eiga rétt á að fara fram á að upplýsingum um sig verði eytt af vanskilaskrá að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Þegar krafa er ekki lengur í vanskilum
Þegar ágreiningslaust er að krafa er ekki lengur í vanskilum þá er óheimilt að miðla upplýsingum um hana.
Þegar upplýsingar sem hafa verið settar á vanskilaskrá eru ekki lengur áreiðanlegar eða hafa ekki lengur afgerandi þýðingu fyrir mat á fjárhagi eða lánstrausti viðkomandi skal fjarlægja þær af skránni.
Um skráninguna
Upplýsingar um einstaklinga eða lögaðila má aðeins skrá á vanskilaskrá þegar skýrar reglur eru uppfylltar. Almennt er það þannig að aðeins má skrá upplýsingar ef viðkomandi skuldari hefur ekki staðið í skilum, til dæmis með greiðslu lána eða reikninga, og eftir að ákveðin viðvörun hefur verið gefin.
Um vinnslu upplýsinga í vanskilaskrá gilda reglur sem bæði Creditinfo Lánstraust hf. og áskrifendur að kerfum fyrirtækisins þurfa að fylgja. Áskrifendur að kerfum Creditinfo Lánstrausti hf. eru til dæmis lánastofnanir og innheimtuaðilar.
Hvenær má skrá upplýsingar
Áður en skráning á sér stað þarf að senda skuldaranum viðvörun og gefa honum færi á að bregðast við eða greiða skuldina. Ef skuldari bregst ekki við viðvörun um skráningu verður hann færður á vanskilaskrá.
Hver getur skráð upplýsingar
Til að fyrirtæki megi óska eftir skráningu um kröfu á hendur þér í vanskilaskrá þarf það fyrst að hafa gert skriflegan áskriftarsamning við fjárhagsupplýsingastofu, þ.e. vera áskrifandi að kerfum þess.
Hver getur skoðað upplýsingar
Fyrirtæki verða að hafa heimild til að fletta upp eða vakta einstaklinga á vanskilaskrá, til dæmis í tengslum við lánaviðskipti eða innheimtu.
Þau verða einnig að halda skrá yfir ástæður fyrir hverri uppflettingu. Vöktun á kennitölu þarf að stöðva um leið og ekki er lengur heimild til hennar.
Þjónustuaðili
Persónuvernd