Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Um vinnslu persónuupplýsinga hjá löggæsluyfirvöldum

Um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í löggæslutilgangi gilda lög nr. 75/2019.

Lögbær yfirvöld

Lögbær yfirvöld í skilningi framangreindra laga eru:

  • dómsmálaráðuneyti

  • ríkislögreglustjóri

  • lögregluembættin

  • ríkissaksóknari

  • héraðssaksóknari

  • Fangelsismálastofnun

  • tollyfirvöld

  • Landhelgisgæsla Íslands

  • skattrannsóknarstjóri og

  • sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra.

Dómstólar teljast ekki til lögbærra yfirvalda samkvæmt lögum nr. 75/2019.

Til þess að vinnsla persónuupplýsinga falli undir gildissvið laga nr. 75/2019 er það eitt að yfirvald falli undir skilgreininguna á lögbæru yfirvaldi ekki nægjanlegt, heldur þarf sú vinnsla sem fer fram hverju sinni að vera í löggæslutilgangi.

Löggæslutilgangur

Með löggæslutilgangi er átt við þann tilgang að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þar með talið að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi.

Vinnslan verður að samrýmast meginreglum laganna

Öll vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi verður að samrýmast meginreglum þeim er koma fram í 4. gr. laga nr. 75/2019.

Þar kemur fram að við vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi skal þess gætt að þær séu unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti, að vinnslan sé lögbæru yfirvaldi nauðsynleg vegna verkefna í löggæslutilgangi, að upplýsingar séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki langt umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, ásamt því að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum.

Þar segir einnig að persónuupplýsingum, sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli eyða eða leiðrétta án tafar, að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða einstaklinga lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu og að þær séu unnar með þeim hætti að viðeigandi öryggi persónuupplýsinganna sé tryggt.

Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga

Að auki verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 75/2019, það er, að sérstök heimild standi til hennar í öðrum lögum, að hún sé til þess fallin að vernda brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings eða að hún varði upplýsingar sem hinn skráði hefur sjálfur gert opinberar.

Viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laganna eru til að mynda persónuupplýsingar um kynþátt eða þjóðernislegan uppruna manns, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, aðild að stéttarfélagi, heilsufarsupplýsingar, kynlíf manna eða kynhneigð, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.

Verður því aðeins unnið með slíkar persónuupplýsingar að brýna nauðsyn beri til vinnslunnar, auk þess sem hún uppfylli að minnsta kosti eitt áðurnefndra skilyrða.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820