Fara beint í efnið

Tilkynna um hópuppsögn

Tilkynning um hópuppsögn

Þegar áætlað er að segja upp fjölda starfsfólks þarf atvinnurekandi að senda tilkynningu um uppsagnirnar til Vinnumálastofnunar. Trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna þarf einnig að fá afrit af tilkynningunni.

Ferli

  1. Fyrst er haft samráð við fulltrúa starfsfólks. Trúnaðarmenn eða aðrir fulltrúar starfsfólks eiga að fá upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir ásamt rökstuðningi atvinnurekanda. Sjá frekari upplýsingar um samráðið hér neðar á síðunni.

  2. Afrit af þessum upplýsingum eru send á netfangið: hopuppsagnir@vmst.is.

  3. Tilkynning um hópuppsögn er send Vinnumálastofnun á netfangið: hopuppsagnir@vmst.is.

  4. Starfsfólki sagt upp.

Skilgreining á hópuppsögn

Hópuppsögn telst vera uppsögn atvinnurekanda á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum þeirra um sig, þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er:

  • að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtæki sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,

  • að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtæki sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu.

  • að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtæki sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Uppsagnir hjá fyrirtæki með 19 starfsmenn eða færri falla því ekki undir reglur um hópuppsagnir, jafnvel þótt 10 starfsmönnum eða fleiri sé sagt upp.

Samráð við fulltrúa starfsfólks

Trúnaðarmenn eða aðrir fulltrúar starfsfólks eiga að fá fá upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir ásamt rökstuðningi atvinnurekanda. Þessir fulltrúar geta þá komið sínum sjónarmiðum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Atvinnurekandi skal láta fulltrúum starfsmanna í té þær upplýsingar sem máli skipta vegna fyrirhugaðra uppsagna og tilgreina skriflega:

  • ástæður fyrirhugaðra uppsagna,

  • fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvaða störfum þeir gegna,

  • hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna,

  • á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eiga að koma til framkvæmda,

  • viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp,

  • upplýsingar um sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna uppsagna aðrar en þær sem kveðið er á um í lögum eða kjarasamningum og hvernig þessar greiðslur eru reiknaðar.

Um samráðið

Það er ekki tiltekið í lögum hvað telst nægilegt samráð né heldur tímarammi um slíkt samráð. Það getur verið mjög mismunandi í hverju tilviki fyrir sig hversu mikið samráðið þarf að vera.

Tilkynning um hópuppsögn

Í tilkynningu til Vinnumálstofnunar skal tilgreina:

  • ástæður uppsagna,

  • fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækinu,

  • hve mörgum starfsmönnum er verið að segja upp,

  • á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi. Hér er átt við hvenær þeim sem sagt er upp láta af störfum.

  • Hvort samráð hefur verið haft við trúnaðarmenn eða aðra fulltrúa starfsmanna og þá með hvaða hætti. Þar þarf að koma fram að minnsta kosti við hvern var haft samráð og hvenær. Þá er átt við helstu samskipti og fundi.

Tilkynningin er send á netfangið: hopuppsagnir@vmst.is. Afrit af tilkynningunni skal einnig senda á trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna.

Af hverju tilkynna Vinnumálastofnun?

Það er mikilvægt að opinber vinnumiðlun í landinu hafi nægilegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir starfsmanna. Þannig getur hún mætt áhrifum af þeim tímanlega.

Birting upplýsinga um hópuppsagnir

Í hverjum mánuði eru birtar samantektir um fjölda hópuppsagna sem borist hafa Vinnumálastofnun mánuðinn á undan. Það er tekið fram í hvaða atvinnugrein þau starfa og hvar á landinu, fjöldi þeirra starfsmanna sem sagt er upp, hvenær þeir muni missa vinnuna og heildarfjöldi starfsmanna viðkomandi fyrirtækja.

Félagsmenn í Samtökum atvinnulífsins

Ef atvinnurekandi er félagsmaður í Samtökum atvinnulífsins eru upplýsingar og eyðublað einnig aðgengileg á Vinnumarkaðsvef samtakanna.

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun