Félagasamtök, áhugamannafélög, íþróttafélög og aðrir lögaðilar geta sótt um styrk fyrir verkefni sem felst í hreinsun strandlengju Íslands.
Um verkefnið
Styrkirnir eru veittir á grundvelli aðgerðar 17 í aðgerðaráætlun umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins í plastmálefnum Úr viðjum plastsins. Aðgerðin felur í sér átak til 3 – 5 ára til allsherjarhreinsunar strandlengjunnar af plasti og öðrum úrgangi. Hreinleiki sjávar er Íslandi afar mikilvægur og hreinsun stranda landsins gegnir þar veigamiklu hlutverki.
Markmið
Tilgangurinn með styrkveitingunum er sá að strandlengja Íslands verði hreinsuð með skipulegum hætti, hreinsuðum ströndum verði haldið við, efla vitundarvakningu hjá almenningi um mikilvægi strandhreinsana og virkja áhugasama aðila til þátttöku í átaki um hreinsun strandlengjunnar.
Skilyrði
Styrkþegar skulu skila gögnum um framgang hvers verkefnis og tölulegar upplýsingar um magn þess úrgangs sem er hreinsaður: Upplýsingarnar verða sýnilegar á heimasíðu verkefnisins strandhreinsun.is.
Styrkir verða veittir til afmarkaðra verkefna og verða þeir almennt veittir til eins árs í senn.
Reglur um styrkveitingar til verkefna sem felast í hreinsun á strandlengju Íslands.
Upphæð
Heildarstyrkupphæð vegna verkefnisins fyrir árið 2024 eru 30 milljónir króna.
Umsóknarfrestur
Frestur til að sækja um styrk er til 10. október 2024.
Þjónustuaðili
Umhverfisstofnun