Fara beint í efnið

Þjónustuaðili

Utanrík­is­ráðu­neytið

Upplýsingar um starf

Starf

Sendiherra

Staðsetning

Höfuðborgarsvæðið

Starfshlutfall

100%

Starf skráð

26.11.2024

Umsóknarfrestur

10.12.2024

Sendiherra

Utanríkisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti sendiherra án staðarákvörðunar á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971. Um er að ræða embætti í 1. flokki skv. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Sendiherrar eru skv. 10. gr. laga nr. 39/1971 flutningsskyldir starfsmenn utanríkisþjónustunnar og gegna störfum sínum á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins eða í sendiskrifstofum.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Sérfræði- og stjórnunarstörf á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

  • Dagleg stjórn sendiskrifstofu og umsýsla málefna sem undir skrifstofuna heyra.

  • Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur skrifstofu sé innan fjárheimilda.

  • Þátttaka í áætlanagerð, skipulagningu og markmiðssetningu. Greining og miðlun upplýsinga.

  • Úrvinnsla starfsmannamála í samráði við aðra stjórnendur og mannauðsdeild ráðuneytisins.

  • Samskipti og samstarf við fulltrúa annara ríkja, alþjóðastofnana og hagsmunaaðila, innanlands sem og á alþjóðavísu.

  • Gæsla íslenskra hagsmuna á sviði utanríkismála, varnarmála, utanríkisviðskiptamála, þróunarsamvinnumála, menningarmála og borgaraþjónustu, sem og aðkoma að gerð þjóðréttarsamninga.

Hæfniskröfur

Grundvöllur ákvörðunar um skipun sendiherra er 1. mgr. 9. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands þar sem víðtækrar reynslu af alþjóða- og utanríkismálum er krafist auk þess sem fullnægja þarf almennum hæfisskilyrðum samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ráðuneytið lítur ennfremur til Stjórnendastefnu ríkisins og framgangsviðmiða utanríkisþjónustunnar fyrir sendifulltrúa eins og áskilið er í greinargerð með lögum nr. 161/2020. Af þessu leiðir að hliðsjón verður höfð af eftirfarandi hæfnisþáttum og umsækjandi:

  • Hafi lokið háskólaprófi sem nýtist í störfum fyrir utanríkisþjónustuna. Embættis- eða meistarapróf er skilyrði.

  • Hafi yfirgripsmikla og árangursríka reynslu af meðferð utanríkismála í ráðuneyti, sendiskrifstofum, alþjóðastofnunum eða með öðrum hætti sem fyllilega má jafna til þess.

  • Búi yfir staðgóðri þekkingu á helstu málaefnasviðum utanríkisþjónustunnar.

  • Búi yfir reynslu og þekkingu af mannauðsmálum.

  • Búi yfir ríkri þjónustulund og aðlögunarhæfni auk vilja, hæfileika og getu til að takast á við sjálfstæða úrlausn verkefna utanríkisþjónustunnar af fjölbreyttu tagi, þar sem sérstaklega er lagt uppúr góðri greiningarhæfni.

  • Hafi framúrskarandi og víðtæka reynslu af því að byggja upp og viðhalda alþjóðlegu tengslaneti.

  • Hafi sýnt fram á leiðtogahæfileika, framsýni og árangursríka stjórnunarreynslu.

  • Búi yfir öflugri getu til að sinna hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd.

  • Búi yfir framúrskarandi enskukunnáttu auk þess sem æskilegt er að umsækjandi búi yfir góðri kunnáttu í að minnsta kosti einu öðru erlendu tungumáli sem nýtist í störfum utanríkisþjónustunnar.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Stöðurnar eru háðar flutningsskyldu skv. 10. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands. Umsækjendur þurfa að standast kröfur um öryggisvottun hjá Ríkislögreglustjóra, sbr. reglugerð nr. 959/2012, bæði við upphaf skipunar og meðan þeir gegna embætti.

Sækja skal um stöðurnar með stafrænum hætti á vef starfatorgs, www.starfatorg.is gegnum ráðningarkerfið Orra. Einungis er tekið við umsóknum með þessum hætti.

Áhugasöm, óháð kyni, eru hvött til að sækja um. Með umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilsskrá ásamt kynningarbréfi á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðum umsóknar og hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur.

Sérstök hæfnisnefnd, skipuð þremur einstaklingum, er utanríkisráðherra til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi umsækjenda. Nefndin, sem starfar skv. fyrirmælum 6. mgr. 9. gr. laga nr. 39/1971, skilar greinargerð til utanríkisráðherra sem skipar í stöðurnar.

Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar skipunarferli er lokið.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 10.12.2024

Nánari upplýsingar veitir

Anna Ósk Kolbeinsdóttir, anna.kolbeinsdottir@utn.is

Þjónustuaðili

Utanrík­is­ráðu­neytið

Upplýsingar um starf

Starf

Sendiherra

Staðsetning

Höfuðborgarsvæðið

Starfshlutfall

100%

Starf skráð

26.11.2024

Umsóknarfrestur

10.12.2024