Fara beint í efnið

Sérfróðir meðdómsmenn

Eitt af hlutverkum dómstólasýslunnar er að tilnefna hæfilegan fjölda sérfróðra meðdómsmanna. Þetta eru einstaklingar sem hafa sérkunnáttu á öðrum sviðum en lögfræði.

Markmið kvaðningar sérfróðra meðdómsmanna er að auka líkurnar á því að dómurinn komist að réttri niðurstöðu, bæta gæði dómsúrlausna og auka traust á störfum dómstóla.

Fara yfir sérfræðigögn

Hlutverk sérfróðra meðdómsmanna er meðal annars að yfirfara og gagnrýna sérfræðigögn sem liggja fyrir í málum þar sem hinum reglubundnu dómurum er það ófært. Það getur verið vegna skorts á sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði. Sérfróðir meðdómsmenn eru kallaðir til þegar:

  • Þörf er á sérkunnáttu til þess að leysa úr máli.

  • Ef mál er umfangsmikið.

  • Sakarefnið er mjög mikilvægt frá almennu sjónarmiði.

Um hvaða sérfræðigögn ræðir er alfarið háð eðli og umfangi viðkomandi máls eru hverju sinni. Það er því ekki hægt að segja til um hvaða gögn viðkomandi sérfróði meðdómsmaður mun koma til með að meta eða með hvaða hætti, fyrr en hann hefur verið kveðinn til setu í tilteknu máli. Sérfróðir meðdómsmenn eru kallaðir til við meðferð mála fyrir héraðsdómi og Landsrétti.

Að verða sérfróður meðdómsmaður

Almennar hæfniskröfur eru:

  • Fullnægjandi þekking og reynsla til að geta gegnt starfi sérfróðs meðdómanda í dómsmálum á viðkomandi sérsviði.

  • Nægilegur þroski og andlegt og líkamlegt heilbrigði.

  • Íslenskur ríkisborgararéttur, vera lögráða og orðinn 25 ára.

  • Hafa forræði á búi sínu.

  • Hafa hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að viðkomandi varð 18 ára, né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.

Reglur

Tilnefningin fellur sjálfkrafa niður ef sá sem tilnefndur er missir almennt hæfi sitt. Jafnframt getur dómstólasýslan fellt tilnefninguna niður ef veigamiklar ástæður mæla með því eða sá sem tilnefndur er óskar þess.

Sá sem tilnefndur hefur verið í hóp sérfróðra meðdómsmanna skal undirrita drengskaparheit um að hann muni jafnan gegna slíkum störfum af samviskusemi og óhlutdrægni og fara í öllu að lögum.

Óheimilt er að tilnefna starfsmann dómstóla í hóp sérfróðra meðdómsmanna.

Fimm ár í senn

Sérfróðir meðdómsmenn eru tilnefndir til fimm ára í senn. Eftir fimm ár getur viðkomandi óskað eftir að tilnefning verði endurnýjuð.

Umsókn

Sérfróðir meðdómsmenn eru tilnefndir úr hópi umsækjenda að undangenginni opinberri auglýsingu. Öllum þeim sem uppfylla kröfur er frjálst að leggja inn umsókn. Ekki er um neinn umsóknarfrest að ræða.

Umsóknir um tilnefningu skal senda rafrænt í gegnum vefgátt dómstóla. Leiðbeiningar um hvernig er sótt um í gegnum vefgáttina má finna hér. Með umsókninni þurfa að fylgja:

  • Ferilskrá.

  • Staðfesting hæsta námsstigs á viðkomandi sérfræðisviði.

  • Umboð fyrir dómstólasýsluna til þess að sækja sakavottorð. Veita þarf dómstólasýslunni umboð til að sækja sakavottorð með því að fylla út eyðublað og senda með umsókninni. Ná í eyðublað.

Vefgátt dómstóla

Dómstólasýslan mun varðveita allar umsóknir og tilnefna sérfróða meðdómsmenn úr hópi umsækjenda eftir þörfum á hverjum tíma.

Tilnefndir sérfróðir meðdómsmenn

Þeir umsækjendur sem tilnefndir verða fara á lista sem er aðgengilegur starfsfólki dómstólanna. Umræddur listi yfir sérfróða meðdómsmenn er birtur á vef dómstólasýslunnar og er uppfærður reglulega.

Af listanum eru kvaddir þeir sérfróðu meðdómendur sem henta best viðkomandi máli hverju sinni. Þó svo að aðili hafi hlotið tilnefningu veitir það ekki fullvissu fyrir því hvort eða hversu oft sérfróður meðdómsmaður má eiga von á því að verða kvaddur til.

Lesa meira:

Þjónustuaðili

Dómstólar