Fara beint í efnið

Niðurstöður úr könnun Maskínu um þjónustu á heilsugæslustöðvum

13. mars 2024

Í lok árs 2023 fór fram þjónustukönnun á vegum Maskínu fyrir Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um þjónustu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni. Könnunin fór fram á tímabilinu 17. október 2023 til 5. janúar 2024. Maskína fékk upplýsingar frá SÍ um einstaklinga sem höfðu heimsótt heilsugælsustöðvar á landsbyggðinni árið 2023 og tók slembiúrtak úr þeim hópi. Þessir einstaklingar fengu sendan hlekk á könnunina í gegnum Réttindagátt SÍ.

Stofnun ársins (1)

Á Austurlandi tóku 428 einstaklingar þátt í könnuninni. Almennt séð komu heilsugæslur HSA mjög vel út samanborið við aðra landshluta. Þjónusta skorar yfir meðaltali og aðgengi almennt gott. Þá var í langflestum tilvikum sem heilsugæslur HSA hækkuðu hvað varðar jákvæða útkomu miðað við könnun fyrir árið 2022.

Hvað varðar einstaka þætti könnunarinnar má m.a. nefna að Austurland kemur betur út hvað landsmeðaltal varðar með traust til heilsugæslunnar þar sem um 70% svarenda á Austurlandi bera mjög mikið eða fremur mikið traust til heilsugæslu HSA á móti rúmum 60% yfir heildina.

Þá segjast um 75% á Austurlandi vera mjög eða fremur ánægt með þjónustuna og mikill meirihluti svarenda (90%) telja að viðmót og framkoma starfsfólks heilsugæslunnar sé gott og fannst því að starfsfólkið vinni vel saman. Hins vegar voru heldur færri sem upplifðu góða samvinnu milli heilsugæslunnar og annarra þjónustuveitenda eða um 60%.

1

75% töldu sig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar eða fræðslu í tengslum við erindi sitt. Hvað varðar þáttöku í ákvarðanatöku um meðferð töldu 13% sig lítið fá að taka þátt og hækkar þessi tala um 3% milli ára.

2

Einnig kom fram að einungis í 26% tilfella sögðu þátttakendur að starfsmaður heilsugæslunnar hefði rætt um lífsvenjur við viðkomandi í síðustu heimsókn þeirra á heilsugæsluna, oftast þá um hreyfingu, næringu og/eða svefn. Hér hefur HSA þó bætt sig aðeins og hækkað um 6% síðan síðast.

Langflestir bókuðu tíma á heilsugæslu með símtali og var rúmur helmingur sem sótti læknisþjónustu. 65% þeirra sem voru með mjög brýnt erindi fengu þjónustu strax og sama var með þá sem voru með fremur brýnt erindi þar sem 65% fengu þjónustu samdægurs. Þeir sem voru með erindi sem þarfnaðist þjónustu/tíma innan tveggja daga fengu í 62% tilvika tíma við hæfi og þeir sem ekki voru með brýnt erindi en þörfnuðust þjónustu innan viku fengu það í 97% tilvika. Langflestir aðspurðra á Austurlandi fengu tíma innan viku eftir að leituðu eftir tíma, einungis 6,9% þurftu að bíða lengur sem er mun minna hlutfall en annarsstaðar á landinu (25-35%).

Þrátt fyrir þessa útkomu töldu um 43% svarenda að styttri bið eftir tíma/þjónustu væri brýnast að bæta hvað varðar þjónustu heilsugæslu HSA. Annað sem kom fram varðandi úrbætur á þjónustu var að 40% töldu skráning á fastan heimilislækni vera brýnast hvað varðar bætta þjónustu, um 37% töldu brýnast að auðvelda aðgengi að læknum í gegnum síma og 30% fannst aukin rafræn þjónusta vera brýnust. Þá töldu einungis 9% svaranda engra úrbóta vera þörf og lækkar sú tala töluvert milli ára, var 22%.

3

Það sem var helst ábótavant varðandi þjónustu heilsugæslu HSA á Austurlandi miðað við annarsstaðar á landinu eru þeir þættir sem snúa að rafbókanlegum tíma í gegnum heilsuveru og að vera með fastan heimilislækni skráðan á sig.

Niðurstöður könnunarinnar má túlka á þann veg að heilt yfir er starfsfólk heilsugæslu HSA að veita afbragðs þjónustu og er viðmót þeirra og framkoma almennt til fyrirmynda. Langflestir þátttakenda fengu tíma við hæfi. Það sem gefur vísbendingu um sóknarfæri snýr að spurningum sem varðar lífsvenjur skjólstæðinga og áhrif á heilsu þeirra. Þá má skoða og útfæra betur atriði er snúa að rafrænni þjónustu og samstarf heilsugæslunnar og annarra þjónustuveitenda. Hvað varðar þá þjónustu sem má bæta nefndu langflestir skort á sérfræðiþjónustu.

4