Heilbrigðisstofnun Austurlands fyrst heilbrigðisstofnana til að ljúka öllum fimm Grænu skrefunum
7. júní 2023
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur nú lokið við öll 5 Grænu skrefin, fyrst allra heilbrigðisstofnana. Það sem hefur einkennt vinnuna hjá HSA er samtakamáttur starfsstöðva en allar hafa þær stigið í takt og innleitt í sameiningu umhverfisvænar aðgerðir.
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur nú lokið við öll 5 Grænu skrefin, fyrst allra heilbrigðisstofnana. Það sem hefur einkennt vinnuna hjá HSA er samtakamáttur starfsstöðva en allar hafa þær stigið í takt og innleitt í sameiningu umhverfisvænar aðgerðir.
Aðgerðir Grænu skrefanna snúa m.a. að minni sóun, flokkun úrgangs, innkaupum á umhverfisvottuðum og lífrænum vörum og fræðslu um umhverfismál til starfsfólks.
Öll þurfum við að taka þátt í því að draga úr neikvæðum áhrifum okkar á umhverfið og geta heilbrigðisstofnanir sannarlega haft þar mikil áhrif, bæði í sínum daglega rekstri en ekki síður í vitundarvakningu til starfsfólks, sjúklinga og aðstandenda.
Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar.
Aðgerðum Grænna skrefa er skipt í 7 flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í venjulegum skrifstofurekstri. Skref 1-4 innihalda aðgerðir í öllum þessum flokkum en fimmta skrefið tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá viðkomandi stofnun.