Ekki er að finna nein sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda á Netinu en almenna reglan er að ef hægt er að greina einstakling á mynd eða í myndbandi þarf að fara að persónuverndarlögum.
Ávallt skal virða einkalíf barna og fara varlega í að birta myndir og/eða upplýsingar um börn á opinberum vettvangi svo sem á samfélagsmiðlum. Börn ætti aldrei að sýna á niðrandi eða óviðeigandi hátt, til dæmis þannig að þau séu nakin, fáklædd eða í erfiðum aðstæðum.
Hafa skal í huga að allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti.
Rétt er að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á það síðar.
Eðlilegast er að óska eftir samþykki frá börnunum áður en rætt er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska.
Börn geta og hafa rétt á að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingu af þeim, þrátt fyrir ungan aldur, og taka ber tillit til þeirra.
Fáðu alltaf samþykki barnsins fyrir birtingu ljósmyndar eða annarra upplýsinga um það á samfélagsmiðlum.
Staldraðu við áður en þú setur inn efnið og veltu fyrir þér hvort þetta eigi yfirleitt erindi við aðra.
Myndir af nöktum eða fáklæddum börnum eiga ekki heima á Netinu, hvort sem myndin er tekin heima í baði eða á sólarströnd.
Ekki birta ljósmynd af barni sem líður illa, sýnir erfiða hegðun, er veikt eða er að öðru leyti í viðkvæmum aðstæðum.
Forðastu að birta upplýsingar og ljósmyndir af börnum í umræðuhópum á samfélagsmiðlum. Óskaðu frekar eftir spjalli við aðila í sömu sporum beint, til dæmis í síma eða í einkaskilaboðum, frekar en í opnu spjalli.
Ekki ganga út frá því að börn séu hlynnt því að þú segir frá atvikum í lífi þeirra á samfélagsmiðlum. Spurðu barnið hvort þú megir segja frá til dæmis sigrum á íþróttamótum eða góðum námsárangri, áður en þú gerir það.
Fullvissaðu þig um að friðhelgisstillingar þínar á samfélagsmiðlum séu þannig að ljósmyndir og aðrar upplýsingar um börnin þín séu ekki aðgengilegar öllum.
Áður en þú birtir ljósmyndir, kannaðu hvort þú þurfir að aftengja GPS hnit, þannig að ekki sé hægt að sjá hvar myndin er tekin.
Í öllum tilvikum, hugsaðu um það sem barninu er fyrir bestu, leitaðu eftir sjónarmiðum þess áður en þú birtir eitthvað um það á samfélagsmiðlum, og hugsaðu um hvaða áhrif það gæti haft á barnið til skemmri eða lengri tíma.
Athuga skal að ákvæði persónuverndarlaganna gilda ekki nema að takmörkuðu leyti um myndbirtingar fjölmiðla, þar sem vinnslan fer fram í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku. Ef myndirnar þykja hafa fréttagildi og eiga erindi við almenning er ekki alltaf nauðsynlegt að afla samþykkis fyrir myndbirtingum í fjölmiðlum.