Kæra vegna velferðarmála
Hægt er að kæra ákvörðun stjórnvalds til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé til þess heimild í lögum. Helstu málaflokkar sem heyra undir nefndina eru:
málefni almannatrygginga (til dæmis ellilífeyrir, örorkulífeyrir, barnalífeyrir)
atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir
félagsþjónusta og húsnæðismál (til dæmis fjárhagsaðstoð og félagslegt húsnæði)
barnaverndarmál
mál tengd greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara
fæðingarorlofsmál
málefni fatlaðs fólks
málefni eldra fólks
sjúkratryggingamál
Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um viðkomandi ákvörðun, nema í barnaverndarmálum þar sem kærufresturinn er fjórar vikur og í málum sem snerta stjórnvaldsákvarðanir umboðsmanns skuldara og umsjónarmanna um greiðsluaðlögun þar sem kærufrestur er tvær vikur.
Einstaklingar geta sent kæru til nefndarinnar en það er einnig hægt að gera í umboði fyrir aðra. Upplýsingar sem fylgja þurfa kærunni svo nefndin geti tekið málið til umfjöllunar eru meðal annars:
Upplýsingar um kæranda / kærendur.
Upplýsingar um kæruefni, hvaða ákvörðun stjórnvalds er verið að kæra.
Gögn þar sem skrifleg ákvörðun stjórnvalds, sem aðilar eru ósáttir með og vilja kæra, kemur fram.
Ef kærandi veitir öðrum umboð, til dæmis lögmanni eða réttargæslumanni, til þess að fara með málið fyrir sína hönd er nauðsynlegt að senda það umboð með kærunni.
Sjá einnig:

Þjónustuaðili
Úrskurðarnefnd velferðarmála