Tannsmíði
Umsókn um háskólanám
BS - 180 einingar
ISCED flokkur: 0911
Tannsmíði er krefjandi fræðilegt og verklegt þriggja ára nám. Þar læra nemendur hönnun og framleiðslu tann-og munngerva með hefðbundnum aðferðum og tölvutækni (CAD/CAM). Með samstarfi við atvinnulífið gefst nemendum tækifæri til að stunda vettvangsnám hér á landi eða erlendis, þjálfa teymisvinnu og fást við raunveruleg verkefni. Að námi loknu er hægt að sækja um starfsleyfi sem tannsmiður og starfa sjálfstætt við fagið eða hjá öðrum.
Er námið fyrir þig?
Hefur þú gott auga fyrir litum, formum og smáatriðum?
Hefur þú gaman að því að vinna með höndunum?
Hefur þú áhuga á bóklegu, verklegu og tölvutengdu námi?
Langar þig að stunda vettvangsnám?
Viltu stunda nám við litla og persónulega deild?
Langar þig að starfa í tannheilsuteyminu?
Um hvað snýst námið?
Tannsmíði er krefjandi og skemmtilegt nám. Í stað skemmdra og brott numinna tanna eru hönnuð og smíðuð ýmiskonar tanngervi með hefðbundnum hætti eða tölvutækni, á tennur, tannplanta eða á gómboga.
Unnið er með ýmiskonar efni, áhöld, tækja- og hugbúnað. Starfið felur í sér nákvæmnisvinnu og er handlagni kostur.
Tannsmiðir þurfa að hafa næmt auga fyrir litum og litbrigðum, vera útsjónarsamir og hafa tilfinningu fyrir heildarsvip.
Markmið námsins er að nemendur verði að því loknu færir til að stunda sjálfstæðar tann-og munngervasmíðar og starfa í tannheilsuteyminu.
Meðal viðfangsefna
Form- og bitfræði
Efna- og efnisfræði
Líffærafræði höfuðs og háls
CAD/CAM Tanngervi
Krónu- og brúargerð
Heilgóma- og partagerð
Tannréttingar
Tannlæknadeild er lítil og persónuleg deild þar sem lausnarleitarnám er haft að leiðarljósi í kennslu. Samkennsla er hjá tannsmiða - og tannlækna nemum, einkum á fyrsta misseri og í bóklegum fögum á seinni misserum.
Grunnfög námsleiðarinnar eru form – og bitfræði, efna- og efnisfræði, líffærafræði höfuðs og háls, krónu- og brúargerð, heilgóma- og partagerð og tannréttingatæki. Auk námskeiða sem búa nemendur undir rannsóknarvinnu og þátttöku í atvinnulífinu.
Flestar kennslubækur í faginu eru á ensku eða Norðurlandamálum en kennsla fer fram á íslensku. Kennsla í bóklegum og verklegum námskeiðum er skipulögð sem lotukennsla eða sem námskeið sem kennd eru alla önnina.
Samkeppnispróf eru haldin í desember í lok fyrsta misseris og fá fimm efstu nemendurnir, sem náð hafa tilskildum lágmarkseinkunnum, rétt til áframhaldandi náms í tannsmíði.
Fyrstu tvö árin fer þjálfun í tann-og munngervasmíði fram í verklegum kennslustofum námsbrautarinnar. Nemendur á þriðja námsári eru í skipulögðu vettvangsnámi á tannsmíðastofu Tannlæknadeildar og hjá samstarfsaðilum í atvinnulífinu hér á landi eða erlendis. Samhliða eru nemendur í fjarnámskeiðum sem búa þá undir að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn og undirbúa rannsóknaráætlun sem lýkur með BS lokaverkefni.
Á tannlækningastofu deildarinnar veita lengra komnir tannlækna- og tannsmiðanemar í verknámi almenningi þjónustu gegn vægu gjaldi. Öll vinna nemenda er unnin undir handleiðslu kennara.
Nemendur í tannsmíði hafa nýtt sér möguleika á Erasmus skiptinámi á fimmta misseri námsins og fengið verklega þjálfun erlendis.
Námsstig: Grunnnám, BS
Hefst: Haustönn 2025
Námstími: 3 ár
Umsóknartímabil: 1. mars 2025 - 5. júní 2025
Námsform: Staðnám
Meðferð persónuupplýsinga
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið
