Kvikmyndafræði
Umsókn um háskólanám
BA - 120 einingar
ISCED flokkur: 0213
Í kvikmyndafræði er lögð áhersla á að skoða kvikmyndamiðilinn í sem víðustu samhengi og teknar eru til sýninga tilrauna- og heimildamyndir, ekki síður en leiknar frásagnarmyndir, og þær greindar í ljósi fjölbreyttra fræðikenninga.
Er námið fyrir þig?
Hefur þú brennandi áhuga á kvikmyndum og kvikmyndasögunni?
Viltu vita hvernig þekking og gott kvikmyndalæsi dýpkar áhorfið og breytir upplifuninni?
Langar þig til að eiga möguleika á krefjandi framtíðarstarfi?
Finnst þér skemmtilegt að horfa á eldri myndir og jafnvel myndir frá ólíkum heimshlutum?
Hvernig líst þér á að taka námskeið á þínu áhugasviði en um leið kynnast nýjum, víkka sjóndeildarhringinn?
Finnst þér gaman að velta kvikmyndum fyrir þér?
Um hvað snýst námið?
Þetta nám er 120 eininga aðalgrein og því þarftu að taka 60 einingar í annnarri námsgrein með því til þess að útskrifast með BA próf.
Þetta nám er líka hægt að taka sem 60 eininga aukagrein með 120 eininga aðalgrein úr öðru fagi.
Í kvikmyndafræði er lögð áhersla á að skoða kvikmyndamiðilinn í sem víðustu samhengi og teknar eru til sýninga tilrauna- og heimildamyndir, ekki síður en leiknar frásagnarmyndir, og þær greindar í ljósi fjölbreyttra fræðikenninga.
Við búum í stafrænum heimi sem er streymt til okkar í símana, tölvuleikir eru umfangsmesti menningariðnaður veraldar, og í vissum skilningi hafa kvikmyndir og tölvuleikir tekið að renna saman. Að hluta til vegna þess að sömu aðferðir eru notaðar til að skapa hvort tveggja, kvikmyndir og tölvuleiki. Framtíðin er stafræn og hún er myndræn. Nám í kvikmyndafræðinni undirbýr þig á fjölbreytilegan hátt fyrir framtíðina.
Helstu áhersluatriði
Kvikmyndarýni
Kvikmyndakenningar
Kvikmyndasaga
Kvikmyndir þjóðlanda
Kvikmyndagreinar
Kvikmyndahöfundar
Tengsl kvikmynda og bókmennta
Táknfræði í kvikmyndum
Helstu markmið
að veita yfirlit yfir sögu kvikmynda á Vesturlöndum og að nokkru leyti í öðrum heimshlutum,
að þjálfa nemendur í að skilja og túlka kvikmyndir frá ýmsum tímum og ólíkum þjóðlöndum, m.a. með hliðsjón af öðrum listgreinum, bókmenntum og menningu,
að kynna helstu hugtök og vinnuaðferðir í kvikmyndafræði og leiðbeina nemendum í gagnrýnni notkun á handbókum og öðrum ritum um kvikmyndir, bókmenntir og menningu almennt,
að þjálfa nemendur í að fjalla um kvikmyndir og annað myndefni og texta á sjálfstæðan hátt í fræðilegum ritgerðum
Kröfur og kennsluhættir
Gera þarf ráð fyrir mikilli heimavinnu. Í fyrsta lagi felst vinna nemenda í að greina og íhuga þær kvikmyndir sem eru skylduefni í viðkomandi námskeiðum, en jafnframt verða þeir að tileinka sér það lesefni sem vísað er til í kennslunni. Lesefni er fyrst og fremst á ensku og íslensku.
Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir mæti vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa séð þær kvikmyndir og lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni.
Annar mikilvægur þáttur heimavinnunnar felst í vinnu verkefna og ritgerða. Til þess að kennslan megi verða lifandi samstarf getur verið nauðsynlegt að nemendur taki að sér að undirbúa og flytja í tímum verkefni af ýmsum gerðum.
Fyrirlestra- og umræðutímar eru einkum haldnir í Aðalbyggingu og Árnagarði, en kvikmyndasýningar fara allajafna fram í Háskólabíói.
Um kvikmyndafræði
Kvikmyndin hefur verið ríkjandi listmiðill um langt skeið og svo er enn við upphaf tuttugustu og fyrstu aldarinnar. En með tilkomu samskiptamiðla og stafrænnar tækni hefur myndmiðlun af ýmsu tagi tekið stakkaskiptum.
Ungt fólk er ekki aðeins neytendur heldur einnig framleiðendur myndefnis, og myndefnið sjálft hefur umbreyst í samskiptaform. Af þessum sökum hefur mikilvægi myndlesturs, kvikmyndarýni og ímyndatúlkunar aukist og endurspeglast það hvergi betur en í náminu í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.
Í kvikmyndafræði læra nemendur að horfa á kvikmyndir og skjámenningu og hugsa um þær með nýjum aðferðum og meðvituðum hætti. Í því felst að nemendur læra að tjá sig um kvikmyndir og myndefni með fræðilegu orðfæri og hugtakanotkun.
Nemendur eru þjálfaðir í að skilja og túlka kvikmyndir frá ýmsum tímum og ólíkum þjóðlöndum, m.a. með hliðsjón af öðrum listgreinum, bókmenntum og menningu.
Námskeið í kvikmyndafræði á borð við það sem reglulega er kennt um költmyndir og námskeiðið „Guð fyrirgefur en ekki ég“ um vestrahefðina fjalla bæði um kvikmyndagreinar, og kvikmyndagreinar eru jafnframt ein af námsáherslum greinarinnar.
Önnur áherslusvið í kvikmyndafræðináminu eru „kvikmyndir þjóðlanda“, námskeið um japanskar, þýskar, og ítalskar myndir eru kennd reglulega. Einnig má nefna „kvikmyndahöfunda“ (Varda, Pasolini, Lynch) og „fræðilegar nálgunarleiðir“ (femínismi, hinsegin fræði, höfundarkenningin, þjóðarbíó/heimsbíó).
Kvikmyndafræðin hefur haldið úti gagnrýnendasveit frá árinu 2017, Engum stjörnum, sem birt hefur á þriðja hundrað kvikmyndadóma. Frá 2019 hafa Engar stjörnur einnig haldið úti hlaðvarpi um kvikmyndir. Þetta er gert í samstarfi við öll kvikmyndahús Reykjavíkur og nemendur skrifa dómana sína í samvinnu við og fá ritstjórn frá kennurum í kvikmyndafræðinni.
Skrifin eru birt á Hugrás og þeim er deilt á samfélagsmiðlum.
Námsstig: Grunnnám, BA
Hefst: Vorönn 2024
Námstími: 2 ár
Umsóknartímabil: 13. september 2024 - 2. desember 2024
Námsform: Staðnám
Meðferð persónuupplýsinga
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið
