Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Háskólanám Forsíða
Háskólanám Forsíða

Kínversk fræði

Kjörsvið: Kínversk fræði

Umsókn um háskólanám

BA - 120 einingar

ISCED flokkur: 0231

Kína er fjölmennasta ríki og annað stærsta hagkerfi veraldar. Umsvif þessa stórveldis eru svo mikil á flestum sviðum mannlífs í heiminum að á 21. öldinni getur engin þjóð heimsins leyft sér að vera án sérfræðinga sem eru læsir á gildismat, stefnu og markmið Kína. Í kínverskum fræðum öðlast nemendur vald á kínverskri tungu og ritmáli sem og skilning á fjölmörgum hliðum kínverskrar menningar, margbrotnum pólitískum og samfélagslegum birtingarmyndum í kínverskum samfélögum nútímans og hinu blómlega og spennandi viðskiptalífi í Kínverska alþýðulýðveldinu.

Er námið fyrir þig?

  • Viltu læra tvær námsgreinar?

  • Viltu geta talað og skilið kínversku?

  • Viltu öðlast skilning á kínverskri heimspeki, sögu og menningu?

  • Viltu verja spennandi ári sem skiptinemi í Kína og ljúka fullu 180 eininga námi?

  • Viltu öðlast forskot í viðskiptalífi heimsins með sérþekkingu á kínverskum aðstæðum?

  • Viltu taka fyrsta skrefið til þess að verða sérfræðingur í málefnum Kína?

Um hvað snýst námið?

Í kínverskum fræðum er boðið upp á fjórar námsleiðir:

Aðalgrein, 180 einingar, felur í sér eins árs skiptinám við erlendan samstarfsskóla Háskóla Íslands, helst í Kína eða Taívan.

Í boði eru kjörsvið kínverskra fræða og viðskiptatengd kínverska sem hentar einkum þeim sem hyggja á störf á sviði viðskipta í tengslum við Kína eða önnur ríki eða svæði þar sem kínverska er töluð. Viðskiptatengd kínverska er þverfagleg námsleið kínverskra fræða og viðskiptafræði.

Áhersla er lögð á að nemendur nái færni í kínversku máli, jafnt í ræðu sem riti, en jafnframt sækja þeir önnur námskeið háð viðkomandi sviði.

Helstu viðfangsefni

  • Saga Kína

  • Kínversk málnotkun

  • Kínversk textagreining

  • Samfélagsmál Kína

  • Stjórnmál Kína

  • Efnahags- og viðskiptalíf Kína

  • Kínversk heimspeki

  • Kínversk trúarbrögð

  • Kínversk kvikmyndalist

Markmið

Markmið náms á kjörsviði kínverskra fræða er að gera nemendum kleift að fá haldbæran skilning á þessu fjarlæga og spennandi menningarsamfélagi fyrir tilstilli sterkrar undirstöðu í tungu, sögu og samfélagsrýni.

Nemendur í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands fái:

  • færni í akademískum vinnubrögðum

  • gott vald á kínversku tal- og ritmáli

  • þekkingu á sögulegum og heimspekilegum forsendum kínversks samtíma

  • innsýn í þróun, breytingar og stefnu kínversks samfélags samtímans

  • skilning á veigamestu birtingarformum kínverskrar menningar

Markmið náms á kjörsviði viðskiptatengdrar kínversku er að gera nemendum kleift að fá gott vald á kínverskri tungu, fá innsýn í kínverskt menningarsamfélag og trausta undirstöðu í viðskiptafræði.

Nemendur í viðskiptatengri kínversku við Háskóla Íslands fá:

  • færni í akademískum vinnubrögðum

  • gott vald á kínverskri tungu

  • trausta undirstöðu í viðskiptafræði

Hagnýtt gildi

Nám í kínverskum fræðum og viðskiptatengdri kínversku býr yfir ótvíræðu hagnýtu gildi hvað varðar starfsmöguleika.

Alþýðulýðveldið Kína leikur nú þegar leiðandi hlutverk á flestum ef ekki öllum sviðum mannlífs í heiminum. Engin þjóð heims getur án þess verið á 21. öldinni að búa yfir sérfræðingum sem búa yfir menningar- og samfélagslæsi gagnvart Kína.

Hlutverk Kína í vísindum, stjórnmálum, viðskiptum, ferðamennsku, íþróttum, menningarmálum og listum verður sífellt umfangsmeira á heimsvísu. Námið greiðir því götuna fyrir ýmsa starfstengda möguleika á ofangreindum sviðum sem og fjölda annarra.

Ljóst er að á Vesturlöndum verður sífellt brýnna að átta sig á menningu og hugsun þessarar fjarlægu þjóðar. Þjóðar sem var meira eða minna einangruð frá Vesturlöndum allt frá upphafi söguritunar en hefur verið að opna sig gagnvart umheiminum á undanförnum fjórum áratugum.

En ekki má gleyma gildi námsins fyrir eigin þroska og fágun. Kínversk menning er óendanleg uppspretta stórbrotinna bókmennta, ljóðagerðar, heimspeki og vísdóms sem lætur engan ósnortinn. Kínversk tunga er lykillinn sem veitir okkur aðgang að þessum leyndardómsfullu gersemum.

Skiptinám og erlend samskipti

Við námslínuna er hvatt mjög til skiptináms, enda fátt sem kemur í stað þess að dvelja í kínversku menningar- og málumhverfi. Skiptinám í kínverskum fræðum er hins vegar einungis í boði fyrir nemendur sem lokið hafa a.m.k. 55 einingum í kínversku máli við Háskóla Íslands. Þannig hafa nemendur í 120 eininga BA-námi kost á að halda til náms við samstarfsskóla að loknum þremur misserum og verja þar einu misseri.

Við 120 eininga nám er unnt að bæta við einu ári í skiptinámi við samstarfsskóla Háskóla Íslands í Kína, Taívan eða annars staðar og ljúka þannig 180 eininga BA-námi í kínverskum fræðum. Nemendur sem kjósa þessa leið þurfa að hafa lokið 70 einingum í kínversku máli við Háskóla Íslands áður en haldið er í skiptinámið.

Skiptinám á kjörsviði viðskiptatengdrar kínversku er einungis í boði á síðasta námsári og þá að loknum öllum skyldunámskeiðum í kínversku máli og menningu við Háskóla Íslands, samtals 66 einingum. Á þriðja ári ljúka nemendur lokaritgerð í tengslum við skiptinám sitt.

Tvíhliða samningar um stúdentaskipti hafa verið gerðir við ýmsa kínverska og taívanska háskóla, sjá nánar hér: http://www.hi.is/skolasamningar.

Kínverska menntamálaráðuneytið býður árlega styrki til náms í kínverskum háskólum og sömuleiðis er í boði styrkur árlega til náms í Taívan. Konfúsíusarstofnun veitir frambærilegum nemendum í skiptinámi einnig námsstyrki fyrir námsdvöl í Kína.

Nemendum stendur til boða að sækja þriggja vikna sumarnám við Nordic Center í Fudan háskóla í Shanghai. Námskeið þessi miða að því að kynna kínverskt samfélag og efnahagslíf. Þau eru auglýst á vorönn og getur Háskóli Íslands tilnefnt þrjá nemendur til að sækja námskeiðið hverju sinni.

Fyrir tilstilli ERASMUS og Nordplus samstarfs gefst einnig kostur á að nema kínversku við norræna og evrópska samstarfsháskóla, þótt mælt sé með því að nemendur í kínverskum fræðum verji skiptinámi sínu í kínversku málumhverfi.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.

Sjá nánar á vef háskóla

Námsstig: Grunnnám, BA

Hefst: Haustönn 2024

Námstími: 2 ár

Umsóknartímabil: 2. mars 2024 - 5. júní 2024

Námsform: Staðnám

haskolanam logo

Meðferð persónuupplýsinga

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið