Ferilskrá og kynningarbréf eru aðaltæki þeirra sem eru í atvinnuleit.
Í ferilskrá greina einstaklingar frá grunnupplýsingum á borð við starfsreynslu og menntun. Í kynningarbréfinu er gerð grein fyrir ástæðu umsóknar.
Ferilskrá
Uppsetning þarf að vera skýr og upplýsingarnar hnitmiðaðar. Lengd ferilskrár er yfirleitt 1 til 2 blaðsíður.
Í ferilskránni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:
Það er misjafnt hversu ítarlegar persónuupplýsingar einstaklingur tekur fram í ferilskrá. Fullt nafn og upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við einstakling er mikilvægt að taka fram. Þetta er til dæmis símanúmer, netfang eða annað.
Upplýsingar um nám er gott að skrá í öfuga tímaröð. Námi sem var lokið síðast er þannig skráð fyrst.
Upplýsingar um heiti skóla og náms þarf að skrá. Einnig námsgráðu og útskriftarár. Ef námi er ekki lokið þá er hægt að skrifa: „Ólokið“ fyrir aftan heiti náms.
Ef einstaklingur hefur lokið einhverjum námskeiðum er hægt að skrá þau í sérkafla og taka fram heiti námskeiðs, skóla og útskriftarár.
Upplýsingar um fyrri störf er gott að skrá í öfuga tímaröð þannig að síðasta starf eða núverandi starf er skráð fyrst.
Skrá skal upplýsingar um:
vinnustað
starfsheiti
starfstímabil
helstu verkefni og ábyrgð í starfi, í stuttu máli.
Til viðbótar við upplýsingar um menntun og starfsreynslu er mikilvægt að draga fram atriði í ferilskrá sem endurspegla aðra hæfni einstaklings.
Algengt er að greina frá tungumála- og tæknikunnáttu, telja upp persónulega færniþætti eða skrifa stutta persónulýsingu.
Einnig getur skipt máli að greina frá réttindum á borð við ökuréttindi, telja upp námskeið og segja frá félagsstörfum, ef einhver eru. egar.
Nafn meðmælanda,
starfsheiti
upplýsingar um símanúmer og netfang viðkomandi.
Meðmælandi er einhver sem getur lagt hlutlaust mat á getu einstaklings til að sinna starfi sínu.
Meðmælendur geta meðal annars verið næsti yfirmaður, fyrri yfirmaður, samstarfsfólk, eða kennarar. Ekki er gott að hafa fjölskyldumeðlim eða vini sem meðmælendur.
Mikilvægt er að láta meðmælanda vita að þeirra sé getið í ferilskrá einstaklings sem er í atvinnuleit svo viðkomandi viti að mögulega verði haft samband vegna meðmæla.
Sniðmát
Hér eru sniðmát sem hægt er að nota til að búa til ferilskrá:
Það er gott að eiga vandaða ferilskrá sem er hægt að aðlaga eftir þörfum.
Það þarf ekki að skrá alla starfsreynslu, nám eða námskeið í ferilskrá. Gott er að hafa í huga að skrá það sem helst skiptir máli vegna starfsins sem sótt er um hverju sinni.
Ef um margar, stuttar, tímabundnar ráðningar í sambærileg störf er að ræða er hægt að draga þær saman og greina frá þeim á einum stað.
Það er mikilvægt að lesa vandlega yfir ferilskrá til að koma í veg fyrir innsláttar- eða stafsetningarvillur.
Ef starfsreynsla og/eða menntun er takmörkuð er ráð að leggja áherslu á aðra hæfni, til dæmis persónulega færniþætti og gera þeim skil í kynningarbréfi.
Einstaklingur þarf að geta svarað fyrir allt sem fram kemur í ferilskrá og gott að búa sig undir að geta svarað spurningum um eigin feril í atvinnuviðtali.
Ávallt skal huga að gagnaöryggi og persónuvernd í meðförum skjala á borð við ferilskrá og kynningarbréf. Þetta er gert með því að til dæmis senda aðeins læst pdf-skjöl eða hlekki á læst skjöl þegar um atvinnuumsókn ræðir.
Kynningarbréf
Kynningarbréf fylgir ferilskrá. Það gefur ítarlegri mynd af hæfni umsækjanda og ástæðum fyrir því að sótt er um ákveðið starf. Kynningarbréf er yfirleitt hálf til 1 blaðsíða.
Í annað horn kynningarbréfs er gott að skrifa dagsetningu og stað.
Gott er að hefja bréf með því að tilgreina nafn viðtakanda og nafn fyrirtækis.
Í framhaldi skal tilgreina nákvæmlega hvaða starf sótt er um og hvaðan starfsauglýsing er tilkomin.
Kynningarbréf sjálft er sett upp í nokkrar málsgreinar þar sem innihald gerir grein fyrir umsækjanda um starf og ástæðum þess að sótt er um.
Í lok kynningarbréfs er gott að undirrita með fullu nafni auk upplýsinga um netfang og símanúmer.
Það er mikilvægt að rökstyðja í stuttu máli hvers vegna umsækjandi telur sig hæfan til að gegna starfinu. Það má líka segja með hvaða hætti fyrirtækið eigi eftir að hafa gagn af störfum umsækjandans.
Það er kostur ef umsækjandi getur nefnt kunnáttu eða reynslu sem gerir hann sérstaklega vel hæfan fyrir viðkomandi starf.
Í síðustu setningu er ágætt að umsækjandi nefni áhuga á að fá að koma í viðtal til að gera betur grein fyrir sér í eigin persónu.
Bréfinu lýkur með stuttri vinsamlegri kveðju og undirskrift.
Fyrir neðan undirskriftina eru talin upp þau fylgiskjöl sem send eru með eins og ferilskrá, upplýsingar frá skóla og þess háttar, eftir því sem við á hverju sinni.
Góð ráð
Gott er að eiga vandað kynningarbréf sem hægt er að aðlaga eftir hverju starfi og fyrirtæki.
Það er nauðsynlegt að draga fram þau atriði sem mæla með umsækjandanum í starfið. Jafnframt þarf að svara hvernig viðkomandi uppfyllir þær kröfur sem settar eru fram í auglýsingunni.
Áherslan í bréfinu á að vera á starfið sem sótt er um, ekki það sem umsækjandi hefur gert í lífinu. Gætið þess að nota „ég“ ekki of mikið.
Mjög mikilvægt er að láta einhvern lesa ferilskrána vandlega yfir til að koma í veg fyrir innsláttarvillur eða stafsetningarvillur.
Gott er að vista bréfið með nafni umsækjandans eða kennitölu, helst sem pdf-skjal.
Atvinnuleitendum hjá Vinnumálastofnun býðst ráðgjöf og námskeið í gerð ferilskrár og það er hægt að setja ferilskrá og kynningarbréf inn á Mínar síður Vinnumálastofnunar.