Evrópskar og norrænar handtökuskipanir
Afhending til og frá Íslandi
Um afhendingu mann á milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja gilda lög nr. 51/2016 um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.
Að því er varðar evrópska handtökuskipun byggja lögin á samningi milli Evrópusambandsins, Íslands og Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja samningsins. Að því er varðar norræna handtökuskipun byggja lögin á samningi Norðurlandanna þar um.
Ríkissaksókanri gefur út evrópska og norræna handtökuskipun vegna afhendingar til Íslands. Handtökuskipun frá erlendu ríki skal send ríkissaksóknara og ríkissaksóknari tekur ákvörðun um afhendingu.
Ákvæði laganna gilda einnig um afhendingu íslenskra ríkisborgara, þ.e. þegar íslenskir ríkisborgarar eru afhentir til aðildarríkja Evrópusambandsins og Norðurlandanna.
Meginreglan er sú að á íslenska ríkinu hvílir skylda til að handtaka og afhenda menn, ef lagaskilyrði eru uppfyllt, nema fyrir hendi séu synjunarástæður þær sem tilgreindar eru í lögunum.
Ferlið
Eftir að ríkissaksóknari fær evrópska eða norræna handtökuskipun í hendur fer í gang það ferli sem kveðið er á um í lögum nr. 51/2016:
Ríkissaksóknari yfirfer handtökuskipun og ef talið er að skilyrðum um form og innihald, sbr. 6. gr. laganna sé fullnægt er handtökuskipun send lögreglu til meðferðar.
Lögreglu ber þá að beiðni ríkissaksóknara að handtaka hinn eftirlýsta og upplýsa um handtökuskipun og taka af viðkomandi skýrslu.
Í kjölfarið er óskað eftir farbanni eða gæsluvarðhaldi eftir atvikum.
Ef lagaskilyrði eru uppfyllt og ekki fyrir hendi synjunarástæður sem tilgreindar eru í lögunum tekur ríkissaksóknari ákvörðun um afhendingu hins eftirlýsta.
Lögreglustjóra er í kjölfarið falið að kynna ákvörðun fyrir viðkomandi ásamt lögmanni.
Ef eftirlýstur maður hefur ekki samþykkt afhendingu getur hann krafist úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga fyrir afhendingu séu fyrir hendi.
Krafa um úrskurð skal berast ríkissaksóknara eigi síðar en sólarhring eftir að hinum eftirlýsta er tilkynnt um að orðið hafi verið við beiðni um afhendingu.
Héraðsdómur skal kveða upp úrskurð innan 40 daga frá handtöku hins eftirlýsta. Þegar um norræna handtökuskipun er að ræða er fresturinn 20 dagar.
Heimilt er að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar innan sólarhrings.
Landsréttur skal kveða upp úrskurð innan 60 daga frá handtöku hins eftirlýsta. Þegar um norræna handtökuskipun er að ræða er fresturinn 20 dagar.
Ef Landsréttur staðfestir ákvörðun um afhendingu er sá úrskurður endanlegur.
Þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skal afhenda eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi tíu sólarhringum eftir að ákvörðunin var tekin. Þegar um norræna handtökuskipun er að ræða er fresturinn fimm sólarhringar.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari